Skátastarfið í Grafarvogi gróskumikið og sumarnámskeiðin komin í sölu
Róbert Örn Albertsson, skátahöfðingi í skátafélagi okkar Grafarvogsbúa og Grafhyltinga, Vogabúum, sem er með aðsetur í Logafoldinni, segir að skátastarfið í Grafarvogi sé gróskumikið og skemmtilegt.
Vogabúar stóðu að sumarhátíðinni við Rimaskóla í dag og geta heldur betur verið sáttir við daginn því mörg hundruð Grafarvogsbúar lögðu leið sína til þeirra og fögnuðu sumdardeginum fyrsta.
Það er líka fyllsta ástæða hjá okkur Grafarvogsbúum að þakka skátunum fyrir að standa svona vel að þessu. Hoppukastali, leiktæki, varðeldur, pylsur, sykurpúðar, kók og prins, sirkusatriði frá Sirkus Íslands og hljómsveitin Dóra & Döðlurnar.
Róbert Örn hefur verið skátahöfðingi í félaginu í nokkur ár og segir gaman að fylgjast með krökkunum vaxa úr grasi og vera með þeim í skátastarfinu.
FLEIRI HUNDRUÐ KRAKKAR Á SUMARNÁMSKEIÐUM SKÁTANNA
Hann segir að sumarnámskeiðin séu að fara í gang og komin í sölu. „Þessi námskeið okkar eru mjög vinsæl og fleiri hundruð krakkar sem koma á þau og hafa gaman.“
Meðfylgjandi mynd er af Róberti Erni í pylsutjaldinu en löng röð var eftir þessum þjóðarrétti okkar Íslendinga og ófáar pylsurnar sem fóru í pottana. Við hlið Róberts er Ester Kristjánsdóttir. Veruleg vinna auðvitað við að halda pylsunum heitum, svo allir verði sáttir.
Alls stóðu tíu skátar vaktina við Rimaskóla í dag og höfðu svo sannarlega í nógu að snúast. Mjög vel að þessu staðið hjá skátunum. Takk með stóru téi.
Stöngin inn hjá þeim, eins og sagt er í boltanum! - JGH