Dóra & Döðlurnar slógu taktinn og sendu góða tóna inn í sumarið
DÓRA & DÖÐLURNAR. Þær voru heldur betur í sumarskapi stúlkurnar í Grafarvogshljómsveitinni Dóra & Döðlurnar þegar þær slógu taktinn og sendu góða tóna inn í sumarið á sumarhátíð skátanna við Rimaskóla.
Þær stigu á stokk við mikinn fögnuð fjölda Grafarvogsbúa og sögðu að vonandi héldist góða veðrið svona áfram í sumar. Sumarið væri tíminn til að fara í bústaðinn, ferðast og jafnvel væri hægt að fara í sólbað í svona veðri.
Þær sögðust ætla að taka fjögur lög og ef fólk hefði áhuga á að hlusta á lögin aftur þá væri þau að finna á Spotify. Þær sungu um ástina í sínu fyrsta lagi og orðuðu það svo að ástin gæti oft verið erfið en engin gæti samt án hennar verið.
En hvar er Dóra? „Hún er hætt í hljómsveitinni en við ákváðum að breyta ekki nafninu.“

Dóra & Döðlurnar. Þeim var vel fagnað þegar þær stigu á stokk. Frá vinstri: Helga Sigríður Kolbeinsdóttir, hljómborð, Hekla Sif Sævaldsdóttir, trommur, Bára Katrín Jóhannsdóttir, gítar og Guðrún Ýr Guðmundsdóttir, gítar. Engin Dóra - hún er hætt í hljómsveitinni.