Hönnun ekki lokið á hringtorgunum en borgin ætlar að snyrta þau til á næstunni
HRINGTORGIN VIÐ EGILSHÖLL! Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri borgarlands, segir í viðtali við Grafarvog.net að meginástæðan fyrir því að ekki sé búið að setja niður gróður og ganga frá á tveimur umdeildum hringtorgum við Víkurveg, skammt frá Egilshöll, sé sú að endanlegri hönnun þeirra sé ekki lokið.
Spurður um hvort ekki sé hægt að snyrta torgin eitthvað til fljótlega, segir hann að hann muni koma því áleiðis að eitthvað verði gert á næstunni til að betrumbæta ásýnd þeirra.
Óræktin á þessum tveimur hringtorgum með njóla og illgresi hefur vakið furðu flestra Grafarvogsbúa enda dágóður tími frá því verktaki lauk við gerð hringtorganna. Óhætt er að segja að flestir íbúar bjuggust við að ráðist yrði í framkvæmdir ekki seinna en
síðastliðið vor og að þetta hafi allt saman tekið óþarflega langan tíma.
Að sögn Hjalta verður væntanlega hafist handa við að standsetja hringtorgin næsta vor þegar hönnun þeirra verður lokið - og jafnvel farið fyrr í verkið ef hönnunin verður tilbúin fyrr en áætlað er. - JGH

Mynd af hringtorginu við Víkurveg og Borgaveg fyrr í vikunni. Íbúi í Grafarvogi réðst á njólann í sumar og stakk hann upp en grastoppar og órækt blasir engu að síður við. Grafarvogsbúar hafa furðað sig á óræktinni miðað við að dágóður tími er liðinn frá því verktaki gekk frá torgunum.

Þetta hringtorg er til hreinnar fyrirmyndar og er við Borgaveg og Sóleyjarima.

Þessi mynd var tekin af hringtorginu við Borgaveg og Víkurveg í byrjun júní og njólinn þá orðinn allsráðandi. Ekki gott! Enda tók óþreyjufullur íbúi Grafarvogs sig til og stakk njólann upp í sumar.