Borgin ætlar að hreinsa til í bílakirkjugarðinum við N1: „Þetta er ekki geymslusvæði“

14. ágúst 2025

BÍLAKIRKJUGARÐURINN FYRIR NEÐAN N1.  Hjalti J. Guðmundsson, skrifstofustjóri borgarlands, segir að borgin muni fara í átak við að hreinsa svæðið fyrir neðan N1 bensínstöðina við Veghús á næstunni. Borgin muni líma miða á þá ónúmeruðu bíla sem þarna eru og gefa eigendum þeirra færi á að koma bílunum eða hjólhýsunum í burtu inna tiltekins tíma.


„Við höfum hreinsað og tekið bíla af þessu svæði áður en það fyllist jafnóðum aftur. Það þarf sjálfsagt að kynna það betur fyrir íbúum að þetta er alls ekki geymslusvæði,“ segir Hjalti í samtali við Grafarvog.net.


ÞÖRF Á VIÐHORFSBREYTINGU SUMRA ÍBÚA


Grafarvogur.net hefur flutt fréttir af þessum bílakirkjugarði að undanförnu og að stórhætta stafi af því fyrir börn að leik, og borgin eigi ekki að láta það líðast að þar séu bílhræ og annað drasl.


Að sögn Hjalta þarf viðhorfsbreytingu hjá þeim íbúum sem líta á þetta svæði sem geymslusvæði eða einhvern ruslahaug fyrir ónotaða bíla og annað drasl.


„ÞETTA ER EKKI GEYMSLUSVÆÐI“


Hjalti segir ennfremur að borgin hafi verið með þetta svæði undir smásjánni í eitt ár og dregið nokkurn fjölda bíla í burtu en jafnóðum bætist nýir við. Hann segist ennfremur hafa fullan skilning á því að íbúar séu óánægðir en á móti komi að þeir íbúar sem líti á þetta svæði til að losa sig við bíla - eða sem einhvers konar geymslusvæði - verði að virða það að þetta sé hvorki geymslusvæði né bílastæði - og hvað þá ruslahaugur fyrir ónýta bíla.


Grafarvogur.net sagði í frétt í gær að það væri í raun Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur sem annist þessi mál af hálfu borgarinnar og límir viðvörunarmiða á bíla þar sem eigendum þeirra er gefinn ákveðinn tímafrestur til að draga þá í burtu.


Spurður um hvort ekki sé hægt að afmarka þetta svæði með hindrunum eða girða það af, svarar Hjalti því til að það komi vel til greina að setja þarna upp áberandi skilti um að þetta sé alls ekki geymslusvæði þótt öllum eigi að vera það ljóst. - JGH

Grafarvogur.net hefur flutt fréttir af bílakirkjugarðinum og ruslahauginum fyrir neðan N1 við Víkurveg-Veghús. Skrifstofustjóri borgarlands segir við Grafarvog.net að borgin muni fara í átak á næstu dögum við að hreinsa svæðið.

Hér er brotin rúða í einu hjólhýsanna - og er það auðvitað stórhættulegt fyrir börn að leik.

Hjalti segir ennfremur að borgin hafi verið með þetta svæði undir smásjánni í eitt ár og dregið nokkurn fjölda bíla í burtu en jafnóðum bætist nýir við. Það þurfi viðhorfsbreytingu hjá þeim íbúum sem telji þetta svæði geymslusvæði, bílastæði - og hvað þá ruslahaug fyrir ónóta bíla.

Hjalti segir að borgin muni á næstu dögum grípa til aðgerða og fara í átak við að hreinsa þetta svæði fyrir neðan N1 bensínstöðina við Veghús. Hann segist hafa skilning á óánægju íbúa en því miður líti allir íbúar svæðið ekki sömu augum. „Þetta er ekki geymslusvæði,“ áréttar Hjalti.

Þetta er ekki heldur bílastæði.