Síðasti fáni ársins hjá Ólafi Sverrissyni - fánakarlinum í Hamrahverfi
Ein af mest lesnu fréttum ársins á Grafarvogur.net var um áhugamál Ólafs Sverrissonar, verkfræðings hjá Landsvirkjun, en hann safnar fánum og flaggar eins oft og viðrar til þess. „Ég reyni að flagga sem fyrst á morgnanna,“ segir Ólafur kampakátur þegar við hittum hann í hádeginu í dag, gamlársdag, og forvitnuðumst um hvaða fána hann hefði dregið að húni á þessum fallega degi, gamlársdegi 2025.
„Það var í covid, þegar ég þurfi að vinna heima eins og fleiri, sem ég byrjaði að flagga reglulega hér heima en ég hef hins vegar haft það sem áhugamál að safna fánum í um tuttugu ár,“ segir Ólafur.
„Ég var með stöng uppi í bústað en svo fékk konan stöng í afmælisgjöf þegar hún varð fimmtug. Fánasafnið var alltaf uppi í bústað en svo kom covid og til að koma sér á fætur á morgnanna þá ákvað ég að vera búinn að flagga klukkan níu þannig að ég flutti fánasafnið heim.“
Eðli málsins flaggar hann sjaldnar á veturna en sumrin en í „sumartíðinni“ að undanförnu hefur hann verið duglegur að draga hina ýmsu fána að húni.
Ólafur á 217 fána og þar af 120 þjóðfánar. Hann varð sextugur á árinu og segir markmiðið að eignast alla þjóðfána heimsins fyrir sjötugsafmælið - en þjóðfánar heimsins eru eitthvað rúmlega tvö hundruð talsins.
Nokkrir þjóðfánar bættust í safnið á þessu ári meðal annars frá Máritíu. „Vinir mínir fóru til Máritíus á árinu og komu heim með fána þaðan, það var ótrúlega skemmtilegt.“
(Máritíus er eyríki á Indlandshafi, um 900 km austur af Madagaskar.)
Hægt er að fullyrða að enginn á jafn marga fána á Íslandi og Ólafur Sverrisson í Hamrahverfinu í Grafarvogi.
Og síðasti fáni ársins hjá honum var auðvitað; Happy new year. Gleðilegt ár.
Skemmtilegt áhugamál hjá Ólafi og fánarnir vekja jafnan athygli í Hamrahverfinu. - JGH

Gamlársdagur og þjóðin kveður árið 2025 og fagnar 2026. Gleðilegt nýar.

Ólafur Sverrisson verkfræðingur er stundum kallaður fánakarlinn í Hamrahverfinu. Hann á stærsta fánasafn á Íslandi; 217 fána, þar af 120 þjóðfána.
Gleðilegt nýtt ár.
