Bálkösturinn í Gufunesi hefur hlaðist hratt upp og verður kveikt í honum kl. 20:30 í kvöld. Allt tilbúið, segir Gibson brennustjóri
Það verða tíu brennur í Reykjavík þetta gamlárskvöld - og að sjálfsögðu er ein þeirra hér í Grafarvogi; í Gufunesi. Það hefur hlaðist hressilega í brennuna síðustu daga og það er allt tilbúið fyrir kvöldið en kveikt verður á brennunni kl. 20:30 í kvöld.
Brennustjóri fyrir hönd borgarinnar að þessu sinni er Gibson Surathed og segist hann eiga von á talsverðum fjölda Grafarvogsbúa á brennuna í kvöld. Það sé útlit fyrir gott veður.
„Efnið í brennuna er frá okkur hjá borginni, efni sem við höfum geymt og svo höfum við fengið frá Sorpu líka - nú og einnig hafa íbúar hér í Grafarvogi komið með efni og lagt okkur lið,“ segir Gibson.
Brennan er svipuð að stærð og undanfarin ár.
Gibson annaðist brennuna við Ægissíðu í fyrra en tók við brennunni í Gufunesi þetta árið. Sá raunar um þrettánda-brennuna í Gufunesi í upphafi árs.
Brennan er handan við hinn ágæta turn í Gufunesi og hægt er að leggja bílum við gamla Gufunesbæinn og ganga smá spöl en einnig er hægt að koma frá Skemmtigarðinum en þar blasir brennan við. Einnig koma margir íbúar gangandi enda fínt að fá sér smá göngutúr í góða veðrinu.
Og munið; Gibson leggur eld að bálkestinum í Gufunesi kl. 20:30 í kvöld. - JGH

Brennan hefur hlaðist hratt upp síðustu daga.

Brennan er vestan megin við þennan turn í Gufunesi - í áttina að Skemmtigarðinum.

Allt tilbúið fyrir kvöldið, segir Gibson, brennustjóri brennunnar í Gufunesi. Kveikt verður í bálkestinum kl. 20:30 í kvöld.

