Selur Daði Már Íslandsbanka á lægra gengi en Bjarni Ben.?

12. maí 2025

HLUTHAFASPJALLIÐ. Í síðustu tveimur þáttum HLUTHAFASPJALLSINS á Brotkast.is hafa þeir Jón G. Hauksson og Sigurður Már Jónsson velt því fyrir sér hvort núverandi stjórnarflokkar, sem töldu söluverðið á Íslandsbanka, 117 kr. á hlut, vera of lágt í mars 2022 þegar þeir voru í stjórnarandsöðu, lendi núna í því að selja bankann á lægra verði. (Sjá hér   og hér.)


Það skyldi þó aldrei vera eftir allt sem á undan er gengið að Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra samþykki sölu á bankanum á lægra gengi en Bjarni Benediktsson gerði á sínum tíma? 


Gengi bréfa í bankanum er núna 114 kr. og markaðsvirði hans 214 milljarðar kr. og virði hlutar ríkisins um 97 milljarðar kr.


Á vef Stjórnarráðsins segir að það sé sameiginlegt mat ríkisstjórnarinnar og ráðgjafa hennar að markaðsaðstæður séu hagfelldar til að ljúka sölunni á eftirstandandi hlutum ríkisins í bankanum. En er það svo? 

Miklar sveiflur hafa verið á gengi Íslandsbanka frá sölunni á 22,5% hlut í bankanum í mars 2022. Hæst farið í 135 og lægst í 94. Fróðlegt verður að sjá hvert gengið verður í útboði ríkisins á bankanum á næstunni.

Gengi bréfa í Íslandsbanka hefur sveiflast verulega frá hinni umdeildu sölu 2022. Fór hæst upp í 135 haustið 2022 og niður í 94 kr. í lok maí í fyrra. Það var 108 kr. í byrjun maí sl. og er núna 114.


Ríkið seldi 22,5% hlut til valinna fagfjárfesta í mars 2022 á genginu 117 og gagnrýndi þáverandi stjórnarandstaða að gengið hefði verið of lágt þar sem það hefði verið 122 í lok viðskipta þess dags sem útboðinu var skellt á um kvöldið. 


Ríkissjóður seldi 35% hlut í Íslandsbanka árið 2021 á genginu 79 þegar bankinn var fyrst skráður á markað og rauk gengið í 95 kr. strax í fyrstu viðskiptum með bréf félagsins í Kauphöllinni.

Ríkið er stærsti hluthafinn í Íslandsbanka með 45,2% hlut.

Hlutur ríkisins í bankanum er jafnan sagður 42,5% í umræðunni en hann er í raun 45,20% þar sem bankinn hefur keypt talsvert af eigin bréfum og þar með hefur hlutur hvers og eins hluthafa hækkað.


Til stendur núna að bjóða bankann til sölu í þremur útboðum; 1) Til almennings. 2) Til innlendra fagfjárfesta. 3) Til erlendra fagfjárfesta?


Og svo á bara eftir að telja upp úr kössunum – hvað er markaðurinn tilbúinn til að greiða hátt verð fyrir hlut ríkisins í bankanum? - JGH


Klippa úr hlaðvarpi þeirra Jóns G. og Sigurðar Más á Brotkast.is (8. maí).

Klippa úr hlaðvarpi þeirra Jóns G. og Sigurðar Más á Brotkast.is (30. apríl).