Sagan af litla útibúinu. Hvað varð um húsið? Sómir sér núna vel sem heimili í Árborg

21. nóvember 2025

Við höldum áfram með söguna okkar af litla Landsbankaútibúinu sem stóð eitt sinn á Olís-lóðinni við Gullinbrú þar sem hin glæsilega Glans-stöð stendur núna.


Margir hafa spurt sig að því hvað hafi orðið um húsið. Núverandi eigandi hússins hafði samband  við Grafarvog.net eftir að hafa lesið fréttir um það hjá okkur líkt og fjöldinn allur sem fór inn á þessa frétt okkar á vefnum.


Svona hljóðaði pósturinn:


„Góðan dag.


Sé að þú ert að skrifa um gamla Landsbankaútibúið sem stóð við Olís við Gullinbrú. Ég bý semsagt í þessu húsi núna með syni mínum. Keypti það af smið í Hveragerði og flutti á lóð í Tjarnabyggð í Árborg.


Þetta er ágætasta hús, opið og bjart miðað við stærð. Ef þig langar að loka sögunni er það í lagi mín vegna. Þarf samt ekkert að vera nafngreind.


Læt fylgja með mynd af húsinu. Það stendur á tæplega hektara lóð, ég er búin að gróðursetja mörghundruð tré og aðrar plöntur, þar á meðal afklippur af ösp sem komu úr garði sem liggur að bílastæðinu við planið sem húsið stóð áður á í Grafarvoginum. Það var dálítið skemmtileg tilviljun. Bestu kveðjur.“


-----


AFSKURÐUR AF ÖSPUM ÚR GRAFARVOGI SEM FÓRU Í ÁRBORG

Þá má geta þess að Rakel Rós Ólafsdóttir, íbúi í Grafarvogi, setti inn skemmtilegan texta í athugasemdakerfi FB við frétt okkar um Glans-stöðina:


„Ég bý í húsinu næst þvottastöðinni (og mér til mikillar ánægju og léttis truflar hún ekkert, hvorki skyggir á útsýni né mengun af nokkru tagi (hvorki hljóð, lykt né sjónmengun).


En talandi um litla Landsbankahúsið sem var þarna (þá líka næst mínu húsi) þá langar mig að deila stuttri sögu: Það eru 60 aspir í garðinum, við lóðamörk, þær voru mjög háar þegar við fluttum inn, við söguðum þær niður í ákveðna hæð og bjuggum til grindverk (tilraun sem heppnaðist mjög vel að okkar mati).


NÚ DAFNA ASPIRNAR OG HÚSIÐ AFTUR „SAMAN“

Að sjálfsögðu féllu til margar stórar nýtilegar greinar til að planta aftur annarsstaðar á hentugri stað, við auglýstum í gefins hóp og komu þónokkrir og tóku greinar, þ.á.m. kona sem kom og fyllti kerru til að planta í stórt land þar sem hún bjó, þangað hafði hún flutt hús til að búa í, tilbúið hús sem hún hafði keypt.


Kemur í ljós að þetta hús er Landsbankahúsið, og nú dafna aspirnar og húsið aftur „saman“ bara á allt öðrum stað. Ég hef farið í bíltúr að skoða þetta og fannst gaman að sjá.


Mér fannst þetta skemmtileg tilviljun og skemmtileg lítil saga til að deila úr hversdagsleikanum.“ - JGH

Bankinn orðinn að heimili í Árborg. Litla Landsbankaútibúið sem eitt sinn stóð á Olis-planinu við Gullinbrú í kvöldsólinni í Árborg þar sem það er orðið að heimili í Tjarnarbyggð. Skemmtileg saga. (Mynd send af núverandi eiganda sem keypti húsið og flutti það í Tjarnarbyggðina).