Ótrúlegur seinagangur í viðgerð Veitna við Víkurveg. Hvað á þetta eiginlega að standa lengi yfir?

21. nóvember 2025

Það hefur ekki farið fram hjá Grafarvogsbúum hvað það hefur tekið Orkuveituna (Veitur) langan tíma að gera við heitavatnslögnina við Víkurveg. Þar eru enn stöplar og girðingar til varnar svæðinu - eðlilega - en hins vegar virðist engin vinna vera á svæðinu. Er ekki hægt að hespa svona framkvæmdum af þegar byrjað er á þeim?


Magnús Ásgeirsson Grafarvogsbúi skaust á svæðið fyrir Grafarvog.net og tók myndir á vettvangi í vikunni en þónokkrir hafa sent vefnum fyrirspurn vegna þessara framkvæmda og hvenær þeim ljúki eiginlega. Það væri nú ekki úr vegi að Orkuveitan svaraði þeirri spurningu.

Svona lítur þetta út viku eftir viku - og ekkert að gerast. Það sjást ekki menn á staðanum. Gertur Orkuveitan ekki hespað svona framkvæmdum af? (Mynd Magnús Ásgeirsson).

Grafarvogsbúum er það enn í fersku minni þegar þessi heitavatnslögn bilaði í endaðan ágúst og skrúfað var fyrir allt heitt vatn inn í hverfið - það sagði sig sjálft. Allir sýndu því skilning og Grafarvogur.net sýndi myndir af dugnaðarforkum að gera við langt fram eftir kvöldi. Í haust þurfti svo aftur að skrúfa fyrir nokkur hverfi í Grafarvogi vegna viðgerða..


Eftir stendur spurningin hjá mörgum - og ekki aðeins Grafarvogsbúum - hvort Orkuveitan hafi sýnt sinnuleysi í viðhaldi á lögnum og hvort himinháar, árlegar arðgreiðslur fyrirtækisins til Reykjavíkurborgar, bitni á fjárfestingum í viðhaldi. Er hin óbeina skattheimta farin að bitna á eðlilegu viðhaldi á lögnum? - JGH

Skiltið sýnir mann að gera við. Gott og vel. En þarna hafa ekki sést menn að vinnu í óratíma og íbúar spyrja sig hvort þetta séu eðlileg vinnubrögð hjá Orkuveitunni. (Mynd Magnús Ásgeirsson).

Það þurfti snör handtök þegar heitavatnslaust varð í Grafarvogi föstudaginn 29. ágúst sl. og vatn komst aftur á um nóttina.

Bilunin var alvarleg og það þurfti nýjar lagnir. Grenjandi rigning þennan dag í borginni og unnið að viðgerð við frekar erfiðar aðstæður.

Myndband á vettvangi föstudagskvöldið 20. ágúst. Viðgerð vegna alvarlegrar bilunar.