Þrengingar gatnamóta við Höfðabakka - forvarnir eða stóraukin slysahætta?
Þrengingar gatnamóta við Höfðabakka standa yfir þessa dagana - og sitt sýnist hverjum. Eru þetta forvarnir fyrir gangandi vegfarendur eða stóraukin slysahætta vegna þeirrar miklu bílaumferðar um þessa aðalæð inn í Grafarvoginn?
Þegar Grafarvogur.net var þarna á ferð í gær að skoða aðstæður kom mest á óvart hve miklar þrengingarnar eru en lauslega slegið á þetta nema þær um 80-100 cm í beygjuakreinunum við gatnamót Höfðabakka og Stórhöfða.
Rökin fyrir þessum þrengingum á kostnað bílaumferðarinnar er að auka öryggi gangandi vegfarenda og hjólreiðarmanna. En hversu mikið eykst öryggi þeirra við þetta? Hversu réttlætanlegt er að stórauka hættuna á árekstrum bíla við gatnamótin með því að færa eyjuna verulega fram og þrengja beygjuakreinina svo mikið og það þrengir sjónsvið ökumanna mjög sem ætla að beygja af Höfðabakkanum og inn á Stórhöfðann?
Einnig er verið að þrengja gatnamótin fyrir ofan, við Höfðabakka og Dvergshöfða, með svipuðum hætti og í sama tilgangi. Þá finnst mörgum sem ljósin séu ekki lengur samstillt á Höfðabakkanum niður í Grafarvog. - JGH

Hér sést vel hve þrenging beygjuakreinarinnar við gatnamót Höfðabakka og Stórhöfða er mikil. Forvarnir eða er verið að búa til stóraukna slysahættu vegna gífurlegrar bílaumferðar við þessi gatnamót?

Eyjan er ekki aðeins breikkuð verulega heldur skagar hún núna verulega fram í gatnamótin þannig að sjónsvið ökumanna sem eru að beygja af Höfðabakka inn á Stórhöfða skerðist verulega.

Við gatnamót Höfðabakka og Dvergshöfða. Umferðareyja bæði breikkuð lítillega og skagar núna meira inn í beygjuakrein þeirra sem koma frá Dvergshöfða og beygja inn á Höfðabakkann. Sem og auðvitað þerra sem beygja til vinstri inn Dvergshöfðann.

Hér er sömuleiðis búið að framlengja eyjuna umtalsvert.

Framkvæmdirnar við Höfðabakkann þessa dagana vekja mikla athygli Grafarvogsbúa sem spyrja sig hvort verið sé að auka slysahættuna við þessi gatnamót í stað þess draga úr henni.

Svo virðist sem umferðarljósin séu ekki lengur samstillt niður í Grafarvog og að bæði þurfi að bíða á rauðu ljósi við Dvergshöfðann og svo aftur nokkrum sekúndum síðar við Stórhöfðann. Niðurstaða; miklu minna flæði umferðarinnar frá því sem var áður.