Pálína er það heillin. Jón Óskar segist ekki með neitt trix við að grilla borgarana
BORGARALEG SKYLDA! Það kannast flestir Grafarvogsbúar við hana Pálínu þegar knattspyrnudeild Fjölnis auglýsir heimaleiki sína í Grafarvogi undir formerkjunum Pálína verður á staðnum. Pálína er jú þekkt sjoppa sem Fjölnir rekur og þar er hægt að fá sér hamborgara, pylsur, sælgæti og annað góðgæti fyrir leikina og í hálfleik.
Þegar okkur bar að garði í hálfleik á leik Fjölnis og KÞ í annarri deild kvenna á dögunum fórum við auðvitað að Pálínu þar sem grillað var af eldmóði. Sá sem hélt um spaðann í þetta skiptið var Jón Óskar Guðlaugsson en hann er í foreldraráði 4. flokks Fjölnis.
Hann virtist fimur með spaðann og spurður um hvaða trikk hann notaði sagðist hann ekki hafa fundið það ennþá - en borgarnir væru hins vegar góðir og nytu vinsælda; það væri fyrir öllu.
Sjoppan Pálína er rekin af foreldraráði fjórða flokks karla og kvenna. Ávinningurinn af sölunni fer í foreldrafélagið sem og til þeirra sem taka þátt í að standa vaktirnar. Þetta hefur gefist mjög vel sem fjáröflun fyrir íþróttaferðir fjórða flokks.
Það er borgaraleg skylda að líta við hjá Pálínu á leikjum Fjölnis. - JGH

Allt að verða klárt í hálfleik en mikil sala var hjá Pálínu fyrir leikinn.

Engin sérstök trix - brellan er að borgararnir séu góðir. Það dugir!