56% landsmanna neikvæð gagnvart þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu

24. júlí 2025

GEGN ÞÉTTINGU. Hún er fróðleg könnunin sem Prósent gerði dagana 1. til 21. júlí um þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu og Vísir greinir frá.


Alls segjast 56% landsmanna vera neikvæð gagnvart þéttingunni.


Spurt var: Hversu jákvætt eða neikvætt er viðhorf þitt gagnvart þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu?


Út frá búsetu sögðust 64% íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur neikvæð gagnvart þéttingunni, 56% íbúa Reykjavíkur og 52% íbúa landsbyggðarinnar.


Sem kunnugt er hafa íbúar í Grafarvogi mótmælt harðlega áformum meirihlutans í borginni um að þétta byggð með miklu raski í grónum hverfum Grafarvogs og vega bæði að útivistarsvæðum og vegakerfinu.


Nokkrir fjölmennir og kröftugir mótmælafundir hafa verið haldnir gegn þéttingarstefnunni en núna styttist í að borgaryfirvöld gangi frá deiliskipulaginu en hátt í tvö þúsund athugasemdir bárust frá Grafarvogsbúum í Skipulagsgáttina í vor. - JGH

Nýjustu fréttir eru þær að íbúðir á þéttingarreitum seljast illa enda helsti kaupendahópurinn yfirleitt í ágætum efnum og aðhyllist ekki bíllausan lífsstíl. Fólk vill eiga bíla og vill bílastæði.

Nokkrir fjölmennir fundir hafa verið haldnir í Grafarvogi þar sem þéttingunni hefur verið harðlega mótmælt. En mun meirihlutinn í Reykjavík hlusta og taka tillit til nýrra kannana og mótmæli okkar Grafaravogsbúa?

Mótmælafundirnir í Grafarvogi hafa verið afar vel sóttir og viljinn skýr.

Frá hitafundinum mikla snemma í vor þegar allt fór í háaloft vegna fyrirkomulags fundarins. Arkitekt á vegum borgarinnar fer hér yfir ferlið svonefnda undir yfirskriftinni Við erum hér. Tímaplanið gerði ráð fyrir að borgaryfirvöld staðfestu skipulagið í júní en töfin á því stafar vonandi af því að verið sé að koma til móts við vilja mikils meirihluta íbúa í Grafarvogi.