Öflugar konur! Soroptimistaklúbburinn hefur styrkt góð málefni í Grafarvogi um milljónir

4. desember 2025

Það er ekki ofsögum sagt að Soroptimistaklúbbur Grafarvogs vinni öflugt starf í þágu samfélagsins hérna í Grafarvogi. Á undanförnum árum hefur klúbburinn stutt við  fjölmörg málefni innan hverfsins sem og utan þess - lögðu meðal annars til 1,5 milljónir króna í landssöfnun Soproptimistaklúbba til styrktar Kvennaathvarfinu. Á upphafsmyndinni sjást starfsmenn Stuðla taka við alls kyns íþróttavörum frá klúbbnum - vörur sem svo sannarlega koma sér vel þar á bæ.


„Klúbburinn var stofnaður árið 1994 af hópi kvenna sem vildu láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins hér í Grafarvogi,“ segir Theódóra Ólafsdóttir, varaformaður klúbbsins og formaður fjáröflunarnefndar.


Hún hvetur konur í Grafarvogi eindregið til að til að koma til liðs við þær og ganga í klúbbinn. „Það er mikil samstaða í klúbbnum og fyrir utan að koma að ákveðnum verkefnum þá njótum við þess auðvitað að vera saman og gera okkur dagamun. Við fórum til dæmis fyrr í haust í heimboð til þeirra Bergþórs Pálssonar og Alberts Eiríkssonar - sem var alveg frábær stund.“

Handagangur í öskjunni. Hér eru þær systur í Soroptimistaklúbbnum að festa miða á kerrur í Hagkaup í Spöng í verkefninu Þekktu ljósin.

Að sögn Theódóru er listinn orðinn langur varðandi styrki til ýmissa málefna í Grafarvogi - og útilokað að tína allt til - en fyrir utan hið blólmlega framlag þeirra í landssöfnuninni fyrir Kvennaathvarfið upp á 1,5 milljónir króna má meðal annars nefna eftirfarandi:


* Jólamatarkörfur til einstæðinga í samstarfi við kirkjuna.
* Bókagjafir til formanna nemendaráða við útskriftir úr grunnskólum Grafarvogs.
* Hjúkrunarheimilið Eir: sérhannað borð undir augnsmásjá og tæki til að mæla augnþrýsting hjá rúmliggjandi einstaklingum.
* Hjúkrunarheimilið Eir: Tvær loftdýnur og tvær rafmagnssessur.
* Gjafir til kvennasambýlis í Vættaborgum – teppi, grill og skjólveggur.
* Magnari fyrir heimili kvenna með Alzheimer.
* Gjafir til sambýlis á Gylfaflöt – róla og sófar/sófasett.
* Fjárhagsaðstoð til bágstaddra í Grafarvogi.


„Við erum hluti af alþjóðlegum samtökum kvenna sem hafa það að markmiði að efla jákvæða heimsmynd þar sem samstaða og styrkur kvenna nýtist til að skapa framfarir. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, mannréttindum fyrir alla, jafnrétti, framförum og friði – með alþjóðlega vináttu og gagnkvæman skilning að leiðarljósi,“ segir Theódóra.


Og bætir við: „Það er mjög góður andi í klúbbnum og ég hvet konur hér í Grafarvogi eindregið til að ganga í klúbbinn og vera með okkur.“  - JGH

Heimboð til Bergþórs og Alberts. Hluti af félagsstarfinu er auðvitað að skemmta sér saman og gera sér dagamun. Hér er hluti klúbbsins í heimsókn hjá þeim sæl- og fagurkerum Bergþóri Pálssyni og Alberti Eiríkssyni fyrr í haust.

Soroptimistasystur að sjá um vöfflukaffi á prjónadegi.

Vinningshafar í golfmóti klúbbsins.

Styrkur til Stuðla. Fulltrúar Soroptimistaklúbbs Grafarvogs afhentu Stuðlum fjölbreyttar íþróttavörur til notkunar í þágu ungmenna í þjónustu þeirra. Meðal þess sem afhent var voru fótboltar, borðtennisbúnaður og körfuboltabúnaður. Frá vinstri: Sigríður Sveinsdóttir, formaður klúbbsins og Sigurbjörg Hjörleifsdóttir, verkefnastjóri klúbbsins. Starfsemenn Stuðla sem tóku á móti gjöfunum. Frá vinstri: Dagný Gunnarsdóttir, Árni Guðmundsson, Ellert Björgvin Schram og Erla Margrét Hermannsdóttir.