Fullt tungl í kvöld - hvað er fullt tungl og hversu lengi værir þú að „aka“ til tungslins? Apollo 11 var fjóra daga til tungslins

4. desember 2025

Það verður fullt tungl í kvöld kl. 23:14 í kvöld, samkvæmt Almanaki Háskóla Íslands. Magnús Ásgeirsson Grafarvogsbúi birtir myndir af tunglinu á FB-síðu sinni í dag og látum við myndir hans fylgja með þessari frétt.


En hvað er fullt tungl? Það er þegar daghlið tunglsins snýr að okkur. Raunar snýr alltaf sama hlið tuglsins að okkur því það snýst einu sinni um sjálft sig á sama tíma og það snýst einn hring umhverfis Jörðina.


„Þegar tunglið snýst í kringum Jörðina sjáum við misstóran hluta af upplýsta helmingnum. Hve stóran ræðast af því hvernig sólin, Jörðin og tunglið raðast upp. Þegar tunglið er milli Jarðar og sólar snýr næturhlið þess að okkur. Þá er sagt að tunglið sé nýtt. Nýtt tungl sést aldrei á himninum,“ segir á vefnum https://www.geimurinn.is/solkerfid/tunglid/


„Með hverju kvöldinu sem líður eftir nýtt tungl sést sífellt meiri hluti af upplýsta helmingi tunglsins. Þá er tunglið vaxandi.


Tveimur vikum eftir nýtt tungl er Jörðin milli tunglsins og sólarinnar. Þá snýr daghlið tunglsins að okkur og við blasir fullt tungl á himninum. Fullt tungl er á lofti alla nótina, alveg frá því að sólin sest og þar til hún rís aftur. 


Eftir fullt tungl fer tunglið minnkandi. Tveimur vikum eftir fullt tungl er tunglið aftur nýtt.


Tunglið er næstum fjórar vikur eða einn mánuð að ferðast í kringum Jörðina. Tunglið er með öðrum orðum nýtt eða fullt á fjögurra vikna fresti.“

Á þessari mynd Magnúsar Ásgeirssonar virðist stutt til tunglsins.

En hvað er langt til tungslins? Að meðaltali er tunglið í 384.400 km fjarlægð frá Jörðinni. Braut tunglsins um Jörðina er sporöskjulaga  svo fjarlægðin er breytileg eða frá um 363.000 km upp í 405.000 km.


 Apollo-tunglfararnir voru um það bil fjóra daga að ferðast til tunglsins. Það tekur ljósið eina sekúndu að ná til tungslins.


Á vefnum geimurinn.is/solkerfid/tunglid/ er þeirri spurningu sömuleiðis varpað fram hvað menn væru lengi að „aka“ til tungslins.


„Segjum sem svo að við ækjum á 90 km hraða á klukkustund og að fjarlægðin til tunglsins sé 384.000 km. Deilum fjarlægðinni með hraðanum og fáum út 4.267 klukkustundir. Deilum svo þeirri tölu með 24 (fjöldi klukkustunda í sólarhring) til að finna dagafjöldann og fáum út 177 daga.“


Svo er bara að fara út með myndavélina í kvöld. Það verður heiðskírt, skv. spánni, og tunglið mun blasa við í allri sinni dýrð. - JGH

Ef þú „ækir“ á 90 km hraða til tungslins þá tæki það þig 177 daga að komast á leiðarenda. Apollo-tunglfararnir voru fjóra daga á leiðinni.