Ó, blessuð vertu sumarsól
SAMEIGINLEG MESSA. Það fór vel á því að kór Guðríðarkirkju undir stjórn Arnhildar Valgarðsdóttur organista veldi sálminn Sumarkveðju, ( Ó, blessuð vertu sumarsól), sem lokasálm í sameiginlegri messu Grafarvogs-, Grafarholts- og Ábæjarsafnaða sl sunnudag.
Það er hásumar, sólin leikur við landsmenn og hitamet falla þessa dagana.
Messan var í Guðríðarkirkju þetta árið og var vel sótt.
Sr. Leifur Ragnar Jónsson og sr. María Rut Baldursdóttir úr Guðríðarkirkju þjónuðu ásamt Degi Fannari Magnússyni frá Árbæjarkirkju og sr. Sigurði Grétari Helgasyni, Grafarvogskirkju.
Kór Guðríðarkirkju söng undir stjórn Arnhildar Valgarðsdóttur organista.
Við birtum hér fyrsta erindið af Sumarkveðju.
Ó, blessuð vertu sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðarvötnin blá.
Nú fossar, lækir, unnir, ár
sér una við þitt gyllta hár.
Nú fellur heitur haddur þinn
um hvíta jökulkinn.
Sameiginleg messa safnaðanna á svæðinu og vel heppnuð. - JGH

Brosmildir prestar í hinni sameiginlegu messu. Frá vinstri: Sr. Sigurður Grétar Helgason, Grafarvogskirkju (ekki í skrúða), sr. Leifur Ragnar Jónsson og sr. María Rut Baldursdóttir úr Guðríðarkirkju og Dagur Fannar Magnússon. Ekki verður sagt um Sigurð Grétar að hann hafi mætt í fullum skrúða.

Lokasálmurinn í messunni. Kór Guðríðarkirkju undir stjórn Arnhildar Valgarðsdóttur organista syngur lagið Ó, blessuð vertu sumarsól. Lag eftir Inga T. Lárusson, ljóð eftir Pál Ólafsson.

Hin sameiginlega sumarmessa var vel sótt.

Sumargleði í sumarmessu.
Hér koma svo seinni tvö erindin.
Þú klæðir allt í gull og glans,
þú glæðir allar vonir manns,
og hvar sem tárin kvika' á kinn
þau kyssir geislinn þinn.
Þú fyllir dalinn fuglasöng,
nú finnast ekki dægrin löng,
og heim í sveitir sendirðu' æ
úr suðri hlýjan blæ.
Þú fróvgar, gleður, fæðir allt
um fjöll og dali' og klæðir allt,
og gangirðu' undir gerist kalt,
þá grætur þig líka allt.
Ó, blessuð vertu sumarsól,
er sveipar gulli dal og hól
og gyllir fjöllin himinhá
og heiðarvötnin blá.
Ingi T. Lárusson / Páll Ólafsson