Bogi Nils, forstjóri Icelandair: Öllum steinum velt við í rekstrinum

10. maí 2025

HLUTHAFASPJALLIÐ.Nýjasti hlaðvarpsþátturinn okkar Sigurðar Más, Hluthafaspjallið á Brotkast.is, er kominn út. 


Ræðum brottrekstur Kára Stefánssonar; forstjóraskipti í þremur stórfyrirtækjum á fimm dögum; stórhækkun bréfa í Alvotech; hvort ríkisstjórnin fái lægra verð fyrir Íslandsbanka en síðasta ríkisstjórn og þáverandi stjórnarandstaða gagnrýndi.


Og þá kom Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, til okkar í heimsókn og fór yfir reksturinn og hvort markmiðið um hagnað á árinu náist.


AIRBUS EÐA BOEING? EKKI ÁKVEÐIÐ!

Fínt spjall við Boga og í sjálfu sér athyglisvert sem hann segir um að fyrirtækið sé ekki enn búið að ákveða sig hvort það velji Airbus eða Boeing í framtíðinni - eða þá hvort félagið verði með báðar tegundirnar í notkun. Airbus þá til dæmis á lengi leiðum.


Hér má sjá lítið brot úr samtalinu við Boga.


HAGNAÐUR 2023 - TAP 2024

Icelandair Group skilaði hagnaði árið 2023, þá í fyrsta sinn í sjö ár og nokkur erfið covidár. En félagið tapaði hins vegar í fyrra. Bogi hafði orð á því í fjölmiðlum í febrúar sl. eftir uppgjör síðasta árs að aukin áhersla yrði lögð á að félagið skilaði hluthöfum sínum hagnaði á þessu ári. 


Félagið tapaði 6,1 milljarði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs sem var um 2ja milljarða króna bati frá sama tíma í fyrra. 


Fyrsti fjórðungur þessa árs og mikil aukning farþega í nýliðnum mánuði, apríl, gefur ágætis vonir um árið en Bogi segir að ákveðin óvissa sé með síðasta ársfjórðunginn vegna efnahagshorfa í heiminum.


ÖLLUM STEINUM VELT Í REKSTRINUM

Hann segir að fyrir um ári hafi félagið lagt í ákveðna umbreytingavegferð sem gangi út á að öllum steinum í rekstrinum sé velt svo tryggt sé að verið sé að reka félagið eins vel og hægt er. 


„Við vorum með lækkun á öllum einingarkostnaði í félaginu á fyrsta ársfjórðungi og það eru ekki mörg flugfélög sem geta státað af því,“ segir Bogi.