Ný bók um Bínu bálreiðu er komin út. Segja má að Bína sé ættuð úr Grafarvoginum

29. júlí 2025

BÍNA FER Í SVEIT. Bækurnar um Bínu bálreiðu hafa allar selst upp og notið mikilla vinsælda. Þær eru í senn þroskandi og skemmtilegar og skrifaðar af einum þekktasta talmeinafræðingi landsins, Grafarvogsbúanum Ásthildi Bj. Snorradóttur. Bækurnar eru fyrir börn á aldrinum 2ja til 6 ára.


Nýjasta bókin um Bínu er núna komin út; Bína fer í sveit, og er fjórða bókin í ritröðinni um þessa vinsælu dúkku sem lendir í ævintýrum og býr við málþroskafrávik og er fyrir vikið oft misskilin og jafnvel talin eitthvað eftir á. Hún er aldurslaus, þannig að hún hentar öllum börnum – og líka eldri börnum sem eiga í vandræðum, vantar færni í boðskiptum ásamt því að vera með slakan orðaforða.

„Með bókunum leitast ég við að skemmta börnum því bækurnar um Bínu eru barnabækur – og þær eiga fyrst og fremst að vera skemmtilegar,“ segir Ásthildur. „En við skrifin byggi ég á reynslu minni sem talmeinafræðingur.“ 

Ásthildur býr í Grafarvoginum, Hamrahverfinu, og því má segja að dúkkan Bína eigi rætur hér í Grafarvoginum. Hinar fjölmörgu og frábæru myndir í bókunum eru hins vegar ættaðar af Akranesi og eru málaðar af snillingnum Bjarna Þór Bjarnasyni, fyrrum bæjarlistamanni á Skaganum. Myndirnar eru sannkölluð listaverk.


FYRST OG FREMST AÐ SKEMMTA BÖRNUM

„Með bókunum leitast ég við að skemmta börnum því bækurnar um Bínu eru barnabækur – og þær eiga fyrst og fremst að vera skemmtilegar,“ segir Ásthildur.


„En við skrifin byggi ég á reynslu minni sem talmeinafræðingur. Þess vegna getum við sagt að Bína eigi sér fyrirmynd í öllum þeim skjólstæðingum sem komu til mín á stofuna í áratugi og fengu þjálfun þegar ég starfaði sem sjálfstætt starfandi talmeinafræðingur á eigin stofu.“


Bækurnar eru skemmtilesning en öllu gamni fylgir alvara og með bókunum vill Ásthildur – í gegnum Bínu – hjálpa börnum við ná betri færni í sjálfstjórn og boðskiptum, sem og að auka orðaforða sinn og málskilning svo þau eigi auðveldara með að fóta sig í lífinu.


BÍNA ER ALGERLEGA MISSKILIN

En Bína er bálreið – eða hvað?


„Eigum við ekki að segja að hegðun hennar endurspegli að hún eigi erfitt með málþroska. Hún er algerlega misskilin eins og börn með málþroskafrávik. Þau hegða sér oft eins og þau séu með hegðunarerfiðleika eða einhverfu en málið er að þau skilja ekki og vita ekki betur. Þess vegna hefur það engan tilgang að bregðast við á móti með reiði séu þau reið.“


Og Ásthildur bætir við: „Ef þú vissir ekki að Bína væri með málþroskafrávik, þá myndir þú skamma hana fyrir að vera óþekk en bækurnar eru þannig uppbyggðar að fólk skilur í hvaða stöðu hún er og að hún þurfi að læra boðskiptafærni.“

Bækurnar um Bínu eru orðnar fjórar talsins í ritröðinni. Þrjár fyrstu eru uppseldar. Bína bálreiða, fyrsta bókin, hefur nýlega verið endurprentuð í þriðja skipti. 

BÍNA OG BOÐSKIPTIN

En hvað er boðskiptafærni?


„Það er m.a. að geta hlustað, beðið, gert til skiptis, (þ.e. talað til skiptis eða leikið sér með leikföng til skiptis; fyrst ég og svo lána ég þér) og muna hvað er sagt. Í samskiptum fólks er mjög mikilvægt að kunna að bíða og hlusta þar til hinn klárar. Þetta er grunnfærni sem færustu sérfræðingar í heimi tala um og á jafnt við um börn sem fullorðna.“


GRAFARVOGSBÚI MEÐ MÖRG JÁRN Í ELDINUM

Ásthildur er 72 ára, ólst upp á Akranesi, er lærður kennari, sérkennari, talmeinafræðingur frá Noregi og með mastersgráðu í faginu frá Bandaríkjunum.


Hún fluttist í Grafarvoginn 1999 og er enn með mörg járn í eldinum. Hún hefur selt talmeinastofuna en leiðbeinir í endurmenntun við Háskóla Íslands ásamt því að vera ráðgjafi fyrir mismunandi stofnanir og sveitarfélög – og svo eru það auðvitað ritstörfin, að skrifa um Bínu bálreiðu.


„Ég fór í sveit á sínum tíma og auðvitað speglast dvölin í sveitinni í bókinni. Bína er ekki utangátta þegar hún í kemur sveitina en hún þarf að læra gamla sveitaorðaforðann; eins og um hrífu, orf, ljá, rokk, hey, hesthús, fjós og um öll dýrin. Þetta er meðvituð orðaforðavinna. En í þriðju bókinni fékk hún tækifæri að læra um orð, hljóð og stafi sem skiptir höfuðmáli varðandi lestrarfærni.“

Eiginmaður Ásthildar, Þorsteinn Scheving Sigurjónsson, er eftirlaunaþegi og stendur þétt við hlið konu sinnar í útgáfunni á ritröðinni um Bínu bálreiðu.

SAMHENT Í ÚTGÁFUNNI

Eiginmaður Ásthildar, Þorsteinn Scheving Sigurjónsson, er sömuleiðis eftirlaunaþegi en kemur drjúgt að útgáfunni. „Steini stendur þétt með mér í þessu, hann er ráðagóður og les yfir alla texta með mér og kemur með athugasemdir. Svo kemur hann auðvitað mikið að dreifingunni.“ 


Hægt er að forpanta bækur hjá Ásthildi á netfanginu asthildurbj@gmail.com áður en þær fara í almenna dreifingu.


Vel gert og öflugt framtak hjá þessum Grafarvogsbúum.


Til hamingju kæru hjón!  – JGH

Hægt er að forpanta bækur hjá Ásthildi á netfanginu asthildurbj@gmail.com áður en þær fara í almenna dreifingu.

Bækurnar eru listilega myndskreyttar af snillingnum Bjarna Þór Bjarnasyni, fyrrum bæjarlistamanni á Skaganum. Myndir hans í bókinni eru sannkölluð listaverk og ríma sérlega vel við textann.