Færeyska fánanum flaggað í Hamrahverfi - þjóðhátíðardagur Færeyinga í dag

29. júlí 2025

FLAGGAÐ FYRIR FÆREYINGUM.  Frændur vorir í Færeyum halda upp á þjóðhátíðardag sinn í dag, 29. júlí, er hann er dánardagur Ólafs konungs Haraldssonar og er þjóðhátíðardagurinn kenndur við hann sem og hátíðarhöldin á þessum degi ár hvert, Ólafsvaka.


Margvísleg skemmtun fer fram yfir Ólafsvökuna og þann 29. júlí er færeyska lögþingið jafnan sett á ári hverju.


Það fór vel á því að á sjálfri Ólafsvökunni  hafi fánasafnarinn, Ólafur Sverrisson, Grafarvogsbúi og íbúi í Hamrahverfinu, flaggð færeyska fánanum í tilefni dagsins og sómdi fáninn sér vel í Hamrahverfinu í dag. 


Ólafur hefur í nokkur ár vakið athygli fyrir að flagga hinum fjölbreyttustu fánum og komst í fréttir RÚV og Grafarvogs.net í vor fyrir þetta áhugamál sitt. 


Þjóðfáni Færeyja nefnist Merkið og var hannaður af færeyskum námsmönnum í Kaupmannahöfn. Hann var dreginn að húni í fyrsta sinn í Færeyjum árið 1919. Hvítur grunnurinn táknar heiðan himinn og hvítfyssandi öldur sem mæta ströndinni. Rauða og bláa litinn er að finna á hefðbundnum færeyskum hálsklút og litirnir tákna einnig tengslin við Ísland og Noreg, en í fánum þeirra eru sömu litir í sama mynstri.


Til hamingju Færeyingar!  - JGH

Hvíti grunnurinn í færeyska fánanum táknar heiðan himinn og hvítfyssandi öldur sem mæta ströndinni. Rauði og blái liturinn í fánanum tákna tengslin við Ísland og Noreg, en í fánum þeirra eru sömu litir í sama mynstri.