Nokkrar umræður um gömlu sementssílóin varðandi Borgarhöfðann
Sementsturnarnir tveir. Nokkrar umræður hafa orðið um gömlu sementssílóin, turnana tvo, við Sævarhöfðann eftir að við birtum fréttina um Borgarhöfðann.
Þessir turnar hafa ekki verið glæstir grannar fyrir íbúa Bryggjuhverfisins undanfarin ár, hrörlegir og umgengnin í kringum þá borginni til skammar. Það er með öllu óskiljanlegt að eigendum hjólhýsanna hafi verið fundinn þessi staður.
Umræðan og tölvupóstarnir til mín hafa hins vegar snúist um að gömlu sílóin verði þarna áfram í nýja hverfi Borgarhöfðans og hvernig þeir muni gera sig þarna áfram. Eitt sinn var rætt um að þarna gæti orðið veitingastaður ofan á turnunum og allt mjög rómó þar á góðum og fallegum kvöldum við sundin blá - útsýnisstaður.
Það getur vel verið að þeir verði til sóma þegar þar að kemur - eftir dágóð ár - þeir verða að minnsta kosti áberandi eins og sjá má á meðfylgjandi tölvumynd af svæðinu.

Grænt og þétt. Mikil glansmynd af Borgarhöfða. Þarna blasa þeir við gömlu sementsturnarnir tveir á miðri mynd. Þeir hafa hins vegar ekki verið til prýði fyrir íbúa í Bryggjuhverfinu sem aka þarna framhjá daglega.
Þá hefur sömuleiðis verið bent á að hamarinn sé ansi brattur fyrir neðan fjölbýlishúsin við Eirhöfðann en á tölvugerðu myndinni hefur hann eiginlega verið jafnaður út. Þá verður ekki annað séð en að Sorpa við Sævarhöfðann hverfi fyrir fjölbýlishúsum.
Flestir spyrja sig hins vegar að því hvernig umferð bíla til og frá hverfinu verði háttað - og sjá ekki annað en að Höfðabakkinn, Bíldshöfðinn, Ártúnsbrekkan, Miklabrautin og Sæbrautin fái dágóðan skammt til viðbótar og eru þessar götur þó þegar sprungnar á álagstímum. - JGH

Frá því í sumar. Umgengnin í kringum sementsturnana hafa verið borginni til skammar. Það er með öllu óskiljanlegt að eigendum hjólhýsanna hafi verið fundinn þessi staður.

Horfið. Á fallegu haustkvöldi í september sl. Hið niðurnídda hjólhýsi sem betur fer horfið. Hefði samt mátt kippa dýnunni með þegar hjólhýsið var fjarlægt.

Tankar Malbikunarstöðvarinnar voru rifnir niður í sumar og svæðið fyrir neðan nýju fjölbýlishúsin við Eirhöfða senn rýmt og lagað. Bent hefur veirð á að bakkinn - hamarinn fyrir neðan Eirhöfðann - sé mun brattari en tölvumyndin af Borgarhöfðanum gerir ráð fyrir. Það má hins vegar auðveldlega bæta úr því.

Borgarhöfðinn verður engin smá byggð. 20 þús. íbúar - 8 þús. heimili. Turnarnir tveir eru lengst til vinstri á þessari mynd.