Hann er 90 ára Grafarholtsbúi og enn virkur í vinnu - og röddin er þekkt úr auglýsingu

21. október 2025

Þeir eru ekki margir sem eru á nítugasta og fyrsta aldursári og eru ennþá virkir í vinnu. Grafarholtsbúinn Kolbeinn Pétursson er hins vegar einn af þeim og er í eigin rekstri eins og hann hefur verið samfellt í 55 ár. Hann hefur eðlilega minnkað við sig frá því erillinn var meiri á árum áður. Hann er þekkt rödd úr auglýsingu. Eða hver þekkir ekki röddina í Uniconta-auglýsingunni: „Ertu nokkuð fastur í fortíðinni?“


Núna er hann umboðsmaður fyrir þýska fyrirtækið Shomburg GMBH & Co sem framleiðir heimsfræg múrkerfi til vatnsþéttingar á húsum og mannvirkjum, ásamt hefðbundnum múrvörum, en Byko sér um innflutning og dreifingu.


Grafarvogur.net  tók hús á Kolbeini á dögunum í Grafarholtinu. Skemmtilegur og hress maður sem ber aldurinn vel. Eiginkona hans er Kristín S. Ásgeirsdóttir sjúkraliði.

Kolbeinn er með umboð fyrir þýskar múrvörur sem seldar eru í Byko. 

FRUMBYGGJAR Í GRAFARHOLTI

Þau hjón eru frumbyggjar í Grafarholti. Þau seldu árið 2001 stórt einbýlishús við Ljárskóga í Breiðholti og fluttust í fjölbýli við Kristnibrautina; rétt fyrir neðan rauðu hitaveitutankana. „Hér líður okkur mjög vel,“ segir Kolbeinn með áherslu.


„Við erum líka svo lánsöm að Kristnibrautin var á sínum tíma ákveðið tilraunaverkefni hjá borginni en gatan er upphituð og því að mestu laus við snjóþyngsli og hálku á veturna - og þá eru nærliggjandi göngustígar sömuleiðis upphitaðir.“


„ERTU NOKKUÐ FASTUR Í FORTÍÐINNI?“

Kolbeinn er sem fyrr segir þekkt rödd í útvarpi en hann var fenginn til að lesa inn á auglýsingu fyrir Uniconta sem er bókhaldskerfi og þar er slagorðið: Ertu nokkuð fastur í fortíðinni? Enda er það svo að þegar hann tekur til máls innan um ókunnuga fær hann oft spurninguna: „Bíddu við, er þetta ekki Uniconta-röddin?


Hann segir að lesturinn inn á auglýsinguna hafi borið skemmtilega að. „Ég var kominn með Uniconta-bókhaldskerfið og búinn að stilla því upp í tölvunni þegar síminn hringi. Maður frá auglýsingadeild RÚV var á línunni og spurði hvort ég væri til í að tala inn á útvarpsauglýsingu sem til stæði að búa til. Hvaða auglýsingu? spurði ég. Uniconta, svaraði hann. Ég hélt það nú; ég væri sjálfur með þetta kerfi.

Kolbeinn er með umboð fyrir REMISIL-SI frá Shomburg í Þýskalandi og segir það frábært efni á steyptar tröppur, hellur í innkeyrslum, svo og bílskýlis- og bílskúrsgólf. Efnið herði yfirborðið og gerir það vatnsfælið.

Í FYRIRTÆKJAREKSTRI Í 55 ÁR

Kolbeinn er þýskmenntaður rafmagnstæknifræðingur og stofnaði árið 1970 fyrirtækið Háberg sem var í Skeifunni og rak það um árabil. Þetta var sérverslun með rafbúnað og varahluti fyrir bíla. Fyrirtækið varð vinsælt meðal fagmanna jafnt sem bíleigenda.


Hann seldi Háberg árið 1995 en hélt áfram með nýtt fyrirtæki, K. Pétursson ehf., sem meðal annars þjónaði augnlækningadeild Landspítalans. Fyrirtækið rekur hann enn, en nú nær engöngu sem umboðsmaður, sem fyrr segir.


VINNAN HELDUR MÉR VIRKUM

Kominn á nítugasta og fyrsta aldursár og spurður hvort hann ætli að hætta að vinna – nei, alls ekki, svarar hann að bragði.


„Ég er þannig gerður að ég verð að brasa eitthvað, hafa eitthvað fyrir stafni, það heldur mér bæði ungum og virkum. Áhugi og gleði í vinnu skiptir öllu máli. Ég þarf til dæmis að þýða talsvert úr þýsku vegna múrvaranna og það er góð leikfimi fyrir hugann.“


SKJÓLSÆLT Á GÖNGUSTÍGUNUM VIÐ GOLFVÖLLINN

Kolbeinn segir að það sé mjög gott að búa í Grafarholti og þau hjón geri nokkuð af því að ganga um svæðið – og þá sérstaklega á göngustígum við golfvöllinn í Grafarholti. Þar sé bæði skjólsælt og fallegt útsýni og svo sé gaman að sjá kylfingana spreyta sig. Sjálfur á hann ágætan feril að baki í golfi.


„Raunar er það svo að ég fer núorðið oftar í sund en út á golfvöll. Sundið er alveg frábær hreyfing, heldur manni hressum og er mikil blessun fyrir liðamótin,“ segir þessi eldhressi Grafarholtsbúi að lokum. - JGH

Hér má sjá AQUAFIN-RB400 sem notað er til vatnsþéttingar á steyptum þökum, t.d. bílskúrsþökum. Það þolir og þéttir 2mm+ sprunguhreyfingar.

Á heimili sínu í Grafarholti. Á nítugasta og fyrsta aldursári - og ekkert að hætta að vinna? „Nei, alls ekki. Ég þarf að hafa eitthvað fyrir stafni og vinnan heldur mér virkum,“ segir Kolbeinn.