Guðlaugur Þór ekki fram í borginni - Hildur sjálfkjörin í efsta sæti D-listans

6. janúar 2026

Grafarvogsbúinn Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram í forvali Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en nokkrar vangaveltur hafa verið um það um tíma hvort hann færi fram í höfuðborginni og skellti sér í borgarmálefnin. Sjá frétt mbl.is hér.


Hildur er því sjálfkjörin leiðtogi flokksins í kosningunum í vor. Guðlaugur Þór segir í viðtali við mbl.is að hann styðji Hildi Björnsdóttur í að leiða listann. Sjá frétt.


Fram kemur hjá honum að það hafi ekki hafa verið auðveld ákvörðun að fara ekki fram í borginni. Aðalatriðið í sínum huga sé þó að meirihlutinn í borginni fari frá og að nýr taki við. Til þess þurfi sjálfstæðismenn að standa saman.


„Við eigum að reyna að lágmarka flokkadrætti, sem hafa verið okkur fjötur um fót. Mitt mat var það að þetta væri það besta í stöðunni núna,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is en Sjálfstæðisflokkurinn er á mikilli siglingu í borginni, samkvæmt könnunum.


Meðfylgjandi mynd af Guðlaugi Þór fylgir frétt Morgunblaðsins og er tekin af Eyþóri Árnasyni ljósmyndara blaðsins. - JGH

Grafarvogsbúinn Guðlaugur Þór Þórðarson íhugaði það af fullri alvöru að taka slaginn í borginni en ákvað að gera það ekki eftir að hafa farið vel yfir málið.

Hildur Björnsdóttir leiðir lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum í vor.