Mikil spenna fyrir Þorrablóti Grafarvogs í Egilshöllinni - brekkusöngur og Bandamenn
Þorrablót Grafarvogs verður haldið í fimmtánda sinn í Egilshöll 17. janúar nk. Blótið hefur vaxið í að verða eitt af þeim allra stærstu enda fer vel um það og gesti í Egilshöllinni. Slíkar eru kræsingarnar á þessu blóti að þar stendur enginn svangur upp frá borði.
Í ár verður ekkert slegið af; frábærir skemmtikraftar og dýrindis matur frá Múlakaffi, bæði glæsilegt þorrahlaðborð og að sjálfsögðu fjölbreyttar kræsingar fyrir þá sem kjósa hefðbundinn veislumat, eitthvað fyrir alla! Veislustjórar verða Salka Sól og Unnsteinn Manuel sem eru af góðu kunn og munu sprella með gestum og hver veit nema þau taki lagið.
Það verður brekkusöngur, Kristmundur Axel mætir að sjálfsögðu, Herra Hnetusmör og Daníel Ágúst og svo keyrir hljómsveitin Bandmenn dansinn áfram inn í nóttina eins og henni einni er lagið.
Seld eru heil 12 mannaborð en einnig er hægt að komast á svokölluð safnborð ef um smærri hópa, pör eða einstaklinga er að ræða.
Salan hefur gengið vel enda er þessi hátíð ein allra stærsta fjáröflun Fjölnis sem einnig mun standa fyrir happdrættismiðasölu á þorrablótinu og er fjöldi glæsilegra vinninga í boði.
Grafaravogsbúar eru hvattir til að skella sér á blótið, skemmta sér konunglega og styrkja í leiðinni okkar frábæra íþróttafélag; Fjölni. - JGH

Egilshöllin heldur vel utan um blótið sem er með stærri skemmtunum hérlendis.

Þorrablót Grafarvogs - þar gleðin er við völd.

Hljóðneminn verður tilbúinn fyrir veislustjórana; Sölku Sól og Unnstein Manuel.

Múlakaffi sér um kræsingarnar; rúbgbrauð, síld, kjamma, hangikjöt, rófustöppu, síld og áfram mætti telja - og svo verður þarna „hefðbundinn veislumatur“ fyrir þá sem eru ekki klárir í þorrakræsingarnar.

Auðvitað eru allir í stuði - það segir sig sjálft.

Brekkusöngurinn hljómar betur eftir nokkur staup.

