Íbúar í Gufunesi ósáttir við ummæli borgarstjóra í viðtalinu á Sýn - „komst upp með að gefa villandi upplýsingar“
Símon Þorkell Símonarson, íbúi í Jöfursbási 11, segir að hann og fjöldi íbúa í Gufunesi séu mjög ósáttir við ummæli borgarstjóra í viðtali á Sýn fyrr í vikunni um ferðir strætó í Gufunesið og hafi mátt skilja á Heiðu Björg Hilmisdóttur borgarstjóra að strætisvagnar gangi þrisvar á morgnanna í Gufunesið og þrisvar síðdegis. Sem og að það væri þægilegt fyrir íbúana að ná leið 6 úr Spöng rétt fyrir ofan byggðina en svo sé ekki. Þá finnst honum að borgarstjóri hafi gert lítið úr fyrstu kaupendum íbúða í Gufunesi með því viðhorfi að það væri eðlilegt að þeir hefðu fá bílastæði þar sem íbúðirnar hefðu verið svo ódýrar.
„Okkur finnst að borgarstjóri hafi komist upp með það í viðtalinu á Sýn að gera lítið úr umkvörtunum okkar vegna lélegra samgangna og gefa villandi upplýsingar. Málið er að það ganga engir strætisvagnar í Gufunesið; það er mergur málsins - og leið 6 úr Spönginni stoppar ekki hér fyrir ofan, eins og borgarstjóri hélt fram í viðtalinu,“ segir Símon.
ENGIR VAGNAR - ENNÞÁ PÖNTUNARÞJÓNUSTA LEIGUBÍLA
Hann bætir við: „Það er einfaldlega rangt að hér gangi strætisvagnar þrisvar á morgnana og þrisvar síðdegis. Hið rétta er að það koma leigubílar, skv. tímatöflu þrisvar á morgnanna og þrisvar síðdegis, og fara upp í Spöng. Þar á milli þarf að panta leigubíl með 30 mínútna fyrirvara upp í Spöng - og því miður koma þeir ekki alltaf á réttum tíma og þá missir fólk af vagninum í Spönginni. Það er sem sé ennþá pöntunarþjónusta leigubíla fyrir hverfið.
Varðandi morgnana þá komast að hámarki sex í stærstu leigubílana - og ef sjö manns bíða - þá þarf að skilja einn eftir. Og þar við situr. Það kemur enginn leigubíll strax í kjölfarið til að ná í þennan eina. Raunar koma hingað stundum fjögurra manna leigubílar á morgnanna. Annað - ef þú ætlar að tvinna saman hjólaferð og strætó þá segir það sig sjálft að þú ferð ekki með reiðhjól upp í leigubíl,“ segir Símon.

Litlu vagnarnir. „Hvers vegna í ósköpunum eru þessir litlu vagnar ekki látnir bæta smá spotta við sig frá Gufunesbænum og aka hingað í Gufunesið? Hér eru tvö strætisvagnaskilti - en engir vagnar. Annað eins aka þessir litlu vagnar hér um í Grafarvoginum á daginn, oft meira og minna tómir.“
LÍTIÐ MÁL FYRIR LITLU VAGNANA AÐ BÆTA VIÐ SIG SMÁ SPOTTA
Að sögn Símonar er krafa íbúa í Gufunesi einföld: „Við viljum að litlu strætisvagnarnir bæti aðeins við sig í akstri og leggi leið sína hingað, skv. áætlun í Gufunesið en gangi ekki bara upp að Gufunesbænum. Hvers vegna í ósköpunum eru þeir ekki látnir bæta þessum smá spotta við sig á Gufunesveginum og aka hingað í Gufunesið? Það eru hér tvö strætisvagnaskilti - en engir vagnar. Annað eins aka þessir litlu vagnar hér um í Grafarvoginum á daginn, oft meira og minna tómir.“

Þetta er eini göngustígurinn úr hverfinu í Gufunesi. Tröppurnar eru sárasjaldan saltaðar, að sögn Símonar.
STÓRHÆTTULEGAR TRÖPPUR - LÉLEGAR HÁLKUVARNIR
Þá segist Símon ósáttur við hve borgin sinni illa hálkuvörnum á þeim eina göngustíg sem liggi frá hverfinu - sem að hluta til er með fjölmörgum tröppum. „Okkur finnst sem þessi stígur mæti alltaf afgangi í snjóruðningi - og þá ferst það yfirleitt fyrir að salta tröppurnar hérna sem eru fyrir vikið stórhættulegar í hálku. Hér hafa orðið hálkuslys í tröppunum vegna þess að þeim er illa sinnt.“

Spilda ehf. (Baltasar Kormákur og fl.) er með 700 íbúðir við Jöfursbás 5 og 7 - en hluti þeirra er með bílastæði í bílakjöllurum undir húsunum.
MEÐ SPILDU EHF. BREYTTI BORGIN UM STEFNU HÉR VARÐANDI BÍLLAUSAN LÍFSSTÍL
Sem fyrr segir er Símon íbúi í Jöfursbási 11 - sem er þyrping fjölbýlishúsa sem fyrst var reist í Gufunesi. Það var Þorpið vistfélag sem fékk lóðina og var lögð á það áhersla að íbúðirnar yrðu ódýrar og um bíllausan lífsstíl yrði að ræða. Að minnsta kosti bíl-litlan lífsstíl því fyrstu drög gerðu ráð fyrir þrjátíu bílastæðum fyrir þessar 137 íbúðir og var þeim síðan fjölgað í sextíu.
Fyrstu íbúarnir fluttu inn árið 2021 en sama ár tók félagið Spilda ehf. (Baltasar Kormákur og fl.) fyrstu skóflustunguna, ásamt þáverandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, að lóðum undir nokkur fjölbýlishús með 700 íbúðum við Jöfursbás 5 og 7 en nokkur þeirra eru enn í byggingu. Hluti þessara íbúða er með bílastæði í bílakjallara - og þá eru einnig stæði fyrir utan blokkirnar. „Borgin breytti algjörlega um stefnu varðandi bíllausan lífsstíl hér á svæðinu þegar kom að Spildu,“ segir Símon.
„FINNST BORGARSTJÓRI GERA LÍTIÐ ÚR OKKUR“
„Í fyrrnefndu viðtali á Sýn upplifðum við það þannig að borgarstjóri væri að gera lítið úr okkur sem fyrstu kaupendum íbúða hér á svæðinu þegar hún sagði að það væri eðlilegt að við hefðum fá bílastæði þar sem íbúðirnar okkar hefðu verið svo ódýrar. Annað hvort er borgin hér með bíllausan lífsstíl hjá öllum íbúum í Gufunesi en ekki bara hjá sumum. Hvernig getur það líka gengið upp að boða bíllausan lífsstíl í upphafi en hafa svo engar eðlilegar strætósamgöngur hingað? Við viljum sitja við sama borð og önnur hverfi.“
„ÞETTA LAGAST MEÐ BORGARLÍNUNNI. JÁ, JÁ.“
Að sögn Símonar voru þau rök færð fyrir því í upphafi að engir strætisvagnar kæmu í Gufunesið því svo fáir byggju þar. Síðastliðið vor hafi þau rök verið nefnd að leiðakerfið myndi lagast þegar borgarlínan kæmi. „Já, já, þetta lagast með borgarlínunni - hvort og hvenær svo sem hún kemur.“
Íbúar við Jöfursbás 11 hafa sömuleiðis haldið því fram að við kynningu á íbúðum þeirra hafi verið sagt að þeir þyrftu í sjálfu sér ekki að hafa áhyggjur af bílastæðum því fengju þeir sér bíl yrði nóg af bílastæðum annars staðar í götunni við Jöfursbása.
„Það hefur engan veginn gengið upp enda vantar tilfinnanlega bílastæði fyrir alla byggðina hérna - og okkur finnst mjög auðvelt að kippa því í lag og búa til ný stæði hérna. Nægt er rýmið hérna á borgarlandinu, að okkar mati.“

Gufunesbærinn. Núna sýnist aukinn áhugi hjá borgarfulltrúum minnihlutans að leggja göngustíg frá Gufunesi að Gufunesbænum og sömuleiðis tengja þann stíg við Hamrahverfið.
ÁHUGI Á GÖNGUSTÍG BEINT AÐ GUFUNESBÆNUM
Loks segir Símon að það vanti göngustíga beint úr Gufunesi í Gufunesbæinn og sömuleiðis vanti meiri tengingu við Hamrahverfið með göngustígum. „Ef við ætlum að ganga að Gufunesbænum þurfum við fyrst að ganga hér upp í Rimahverfið og koma niður hjá Gullnesti. Sumir hafa gengið eftir Gufunesveginum en það segir sig sjálft að það er stórhættulegt. Það er þörf á úrbótum og ég heyri það á nokkrum borgarfulltrúum minnihlutans í borginni að áhugi sé á að bæta úr og gera stíg héðan að Gufunesbænum.“
Hann segir að stóra málið núna sé hins vegar að bæta strætósamgöngur með því að láta strætisvagna ganga í Gufunes skv. áætlun – eins og í önnur hverfi – og fjölga bílastæðum því í Gufunesi búi margt ungt fólk með börn og vilji hafa þann kost að eiga bíl til að sinna erindum sínum.
GUFUNESIÐ ER EKKI BÍLLAUS LÍFSSTÍLL
„Gufunesið er ekki bíllaus lífsstíll þó lagt hafi verið upp með það í upphafi. Það hefur borgin sjálf staðfest með úthlutunum á lóðum fyrir um 700 íbúðir til Spildu - en hluti þeirra er með bílastæði í bílakjöllurum og svo eru einnig stæði fyrir utan húsin,“ segir Símon Þorkell Símonarson, að lokum. - JGH

Lagt ólöglega uppi á gangstétt í Gufunesi. Íbúarnir segja lögreglu og stöðumælaverði koma reglulega til að sekta bíleigendur fyrir að leggja uppi á gangstéttum. Eftir klukkan átta á kvöldin er nánast útilokað að fá stæði - líka á malarstæðinu sem er lengst til hægri á myndinni.

Símoni Þorkeli Símonarsyni og fleiri íbúum í Gufunesi finnst að borgarstjóri hafi komist upp með að gefa villandi upplýsingar um ferðir strætó í Gufunesið og gert lítið úr umkvörtunum íbúa. Engir vagnar komi í hverfið og ennþá sé pöntunarþjónusta leigubíla. Þá finnst honum að borgarstjóri hafi gert lítið úr þeim sem keyptu fyrstu íbúðirnar í Gufnesi með því að segja að eðlilega fylgdu fá bílastæði íbúðunum þar sem þær hefðu verið svo ódýrar.

Þétting byggðar. Hér er verið að troða niður nýju fjölbýlishúsi við Jöfursbás 9 með 27 íbúðum alveg ofan í Jöfursbás 11. Ekki hafði verið gert ráð fyrir þessu húsi í upphafi. Engin bílastæði fylgja þessum nýju íbúðum og því eykst bílastæðavandinn enn meira þegar íbúar hafa flutt þarna inn.

Um 900 íbúðir verða í Gufunesi þegar framkvæmdum lýkur. Hann er ekki bíllaus lífsstíllinn í Gufunesi - síður en svo. „Annað hvort er borgin hér með bíllausan lífsstíl hjá öllum íbúum í Gufunesi en ekki bara hjá sumum,“ segir Símon Þorkell.

Fjölbýlishús Spildu ehf. við Jöfursbás 7. Að þessu tugmilljarða verkefni Spildu ehf. í Gufunesi kemur meðal annars Baltasar Kormákur kvikmyndagerðarmaður.

Merki Strætó við Jöfursbás 11. Fallegur gulur vagn á skiltinu. Málið er hins vegar að það koma engir vagnar í hverfið heldur er ennþá pöntunarþjónusta leigubíla.

Í sumar auglýsti Strætó aukna þjónustu á leið 25 í Gufunesið. Hún fólst í því að frá og með 1. júlí yrði leiðin með 30 mínútna tíðni á virkum dögum í stað um 60-120 mínútna tíðni. Í praxís þýðir þetta að leigubíll kemur fyrstu þrjár ferðirnar á morgnanna skv. þessari tímatöflu og þrisvar síðdegis. Annars gildir það að hringja í Strætó með 30 mínútna fyrirvara og panta leigubíl - sem ekur þá viðkomandi upp í Spöng.

Rými fyrir bílastæði. Íbúar benda m.a. á þetta svæði við Jöfursbás 11 til að fjölga bílastæðum. Þess má svo geta að Sundabrautin verður lögð þarna rétt hjá verði af henni fremur en göngum.

Gufunesið. Fyrstu íbúðirnar voru auglýstar sem bíllaus lífsstíll en það breyttist fljótt þegar Spildu ehf. var úthlutaðar lóðir fyrir 700 íbúðir. Í þyrpingunni lengst til hægri á myndinni, Jöfursbási 11, sem Þorpið vistfélag byggði, eru 137 íbúðir og var upphaflega gert ráð fyrir 30 stæðum en þeim var svo fjölgað í 60. Þ.e. 0,44 stæði á íbúð.

„Stóra málið núna er að bæta strætósamgöngur með því að láta strætisvagna ganga í Gufunes skv. áætlun – og sitja við sama borð og önnur hverfi – og fjölga bílastæðum því hér býr ungt fólk með börn og vill hafa þann kost að eiga bíl til að sinna erindum sínum.“


