Meiri sala á bókum en í fyrra, segir Pétur Viðarsson bóksali í Torginu

10. desember 2025

Pétur Viðarsson, bóksali í Bókabúðinni í verslunarmiðstöðinni Torginu í Grafarvogi, segir að sala á bókum sé meiri en undanfarin ár og að veruleg aukning sé í sölu á barnabókum.


Hann hefur staðið vaktina í litlu bókabúðinni sinni af mikilli eljusemi frá árinu 1994 eða í rúm þrjátíu ár og þjónustað Grafarvogsbúa. 


Af einstökum höfundum segir hann að
Arnaldur, Yrsa og Ólafur Jóhann seljist best og að  sér sýnist bók Ólafs, Kvöldsónatan , hafi vinninginn, ef einhver er. Einar Kárason komi þarna stutt á eftir.


Bók Arnalds Indriðasonar heitir Tál , Yrsu Sigurðardóttur Syndafall og Einars Kárasonar, Sjá dagar koma.


Ef til vill segja einhverjir að þetta sé hefðbundið, Arnaldur og Yrsa  við toppinn enn eitt árið. Að vísu seldist bókin hans Geirs Haarde  vel hjá mér í fyrra, raunar mjög vel,“ segir Pétur.


Hann segir ennfremur að það sé mjög ánægjulegt hvað barnabækur seljast vel þetta árið - og hversu mikið er spurt um þær. „Ævar vísindamaður hefur vinninginn í barnabókunum, líkt og undanfarin ár,“ segir Pétur. „Gunni Helga selst líka alltaf vel.“


Bókabúðin í Torginu er opin frá 11 til 18 alla virka daga. „Núna bætum við laugardögunum við og erum með fjóra síðustu laugardagana fyrir jól opna - og svo síðasta sunnudaginn fyrir jól líka. Aðventan er skemmtilegur tími og ánægjulegt að bókin á alltaf sína traustu fylgjendur þegar kemur að jólunum.“


Rétt aðeins í lokin - þú er þekktur sem mikill stuðningsmaður Úlfanna í enska boltanum. „Uss, núna er staðan erfið hjá okkur þar. Búnir að selja mjög marga góða leikmenn á undanförnum árum. En vonandi birtir til hjá okkur á næstunni og við náum að halda okkur uppi.“ - JGH 

Við nefndum Pétur Viðarsson brosmilda bóksalann þegar við tókum hús á honum í apríl sl. Engar ýkjur þar, hann hefur gaman af að þjónusta Grafarvogsbúa í litlu bókabúðinni sinni þar sem hann hefur staðið vaktina í yfir þrjátíu ár.

Þessi kallar eru sívinsælir; Pilkington jólasveinarnir, segir Pétur. Þeir fara ofan í margan pakkann en margir safna þessum sveinum.