Hluthafaspjall ritstjóranna - hversu mikið fé hefur ríkið farið á mis við vegna sölunnar á Íslandsbanka?

6. desember 2025
Þær urðu heldur betur fjörugar umræður hjá okkur félögunum Sigurði Má Jónssyni í nýjasta þætti Hluthafaspjalls ritstjóranna sem tekinn var upp í hádeginu í gær og hægt er að nálgast í heild sinni á Brotkast.is. Þetta var tímamótaþáttur; númer 50 frá því í fyrrahaust – og erum við ánægðir með þann mikla fjölda gesta sem hafa komið til okkar í þáttinn frá því við byrjuðum. 
Á meðal þess sem við ræddum í gær. 
1.
Fór ríkið á mis við 25 milljarða? Gengi bréfa í Íslandsbanka hefur rokið upp að undanförnu og er komið upp í 142 kr. Hlutur ríkisins sem seldur var í vor er núna 115 milljarða virði en var seldur á um 90 milljarða. 
2. 
Þrátt fyrir að bréf í Alvotech hafi hækkað að undanförnu, og gengi þeirra sé komið í 674, þá má minna á að gengið var um 1.900 snemma á árinu.
3. 
Það er ánægjulegt fyrir Róbert Wessman að kaupum Lotus í Taívan á öllum rekstri Alvogen US sé formlega lokið. Róbert er stjórnarformaður Lotus en sameinað fyrirtæki er eitt af tuttugu stærstu samheitalyfjafyrirtækjum heims.
4.
RÚV og Eurovision. Hvers vegna ekki að spyrja þjóðina? Ísraelum verður ekki vísað úr keppninni en fyrr í haust setti meirihluti stjórnar RÚV fyrirvara um þátttöku Íslands vegna þessa máls og lét Samband sjónvarpsstöðva Evrópu vita af þeim fyrirvara. Hver ákveður þátttöku okkar? Stjórn RÚV eða ráðherra? Ísland er mikil Eurovision-þjóð. Hvers vegna er þjóðin ekki spurð? Hvar eru könnunarfyrirtækin núna?
5.
Er virkilega svo komið í lok ársins 2025 að Logi Már Einarsson menntaráðherra hafi framtíð fjölmiðla á Íslandi í höndum sér? Núna bíða einkreknir fjölmiðlar eftir molum frá honum í formi fjölmiðlastyrkja. Þetta minnir á sjávarútvegsfyrirtæki á árum áður þegar forráðamenn þeirra biðu í röðum á skrifstofu forsætisráðherra til að geta reddað rekstrinum frá mánuði til mánaðar. 
6.
Kvartað var yfir fyrirferð RÚV á fjölmiðlamarkaðnum fyrir nokkrum árum - og var krafan þá að ríkið minnkaði umfang sitt. Nei, nei, - þess í stað var hlutur ríkisins aukinn með því að moka molum í einkarekna fjölmiðla sem núna eru orðnir háðir ríkinu í fjárframlögum. 
7.
Það vekur athygli að tekjur Sýnar á þriðja ársfjórðungi voru minni núna en í fyrra – þrátt fyrir að enski boltinn hafi átt að stórauka tekjurnar. Tap fyrir tekjuskatt á þessum ársfjórðungi var sömuleiðis mun meira núna en í fyrra.
8.
Umframeftirspurn var í stórglæsilegu hlutafjárútboði Dranga sem rekur Samkaup, Orkuna og Lyfjaval. Félagið er metið á 24 millljarða eftir útboðið. Skel á 61% í Dröngum.
9. 
Jólasalan er núna í fullum gangi. Gengi bréfa í Festi og Högum hefur hækkað talsvert á árinu; eða um 19% í Festi (markaðsv. 119 makr.) og um 15% í Högum (makaðsv. 127 makr.)
Þetta og talsvert meira í þessum fimmtugasta þætti okkar. Myndataka gleymdist þannig að við fórum í safnið.