Markaðsverð Brims, Síldarvinnslunnar og Ísfélagsins lækkað um 105 milljarða

27. júlí 2025

105 MILLJARÐA RÝRNUN. Markaðsvirði sjávarútvegsfyrirtækjanna þriggja í Kauphöllinni hefur lækkað um 105 milljarða frá áramótum.


Þetta förum við Sigurður Már Jónsson yfir í nýjasta þætti HLUTHAFASPJALLS ritstjóranna og sýndur er á fjölmiðlaveitunni Brotkast.is. Sjá umræður okkar hér. Þetta eru einfaldlega viðbrögð markaðarins við hækkun ríkisstjórnarinnar á hækkun veiðigjalda úr 10 í 20 milljarða.


Áhrifin á alla haghafa í sjávarútvegi, alla þá sem hafa hag, beinan og óbeinan af greininni, eru auðvitað meiri.


Þúsundir einstaklinga, sem eiga hlut í þessum þremur skráðu sjávarútvegsfélögum hafa tapað stórfé; sömuleiðis lífeyrissjóðirnir - og þá fjölskyldur landsmanna í gegnum þá. Sveitarfélögin missa útsvarstekjur. Nýsköpun í iðnaði tengdum sjávarútvegi tekur skref aftur á bak. Fyrirtæki almennt sem tengjast sjávarútvegi horfa fram á verri verkefnastöðu með haustinu. Lífeyrissjóðirnir ræða núna um pólitíska áhættu við fjárfestingar.


Þá virðist búið að reka fleyg í sjávarútveginn í Kauphöllinni og verður ekki annað séð en að nýskráningum sjávarútvegsfyrirtækja á markaði sé lokið. 


Loks virðist gleymast að formúlan á bak við hagvöxt og verðmætasköpun okkar Íslendinga byggist mest á fjárfestingum og sterkum útflutningsatvinnugreinum og gefi þær eftir í samkeppni erlendis dragast bæði landsframleiðsla og þjóðatekjur saman. -JGH

Við Sigurður Már ræðum viðbrögð markaðarins í Kauphöllinni við hækkun veiðigjalda.