Magnús Ásgeirsson var formaður á aðal byggingartíma kirkjunnar - þetta var alveg svakaleg vinna
Magnús Ásgeirsson viðskiptafræðingur var formaður sóknarnefndar Grafarvogssóknar á aðalbyggingartíma kirkjunnar - eða á árunum 1991 til 1995. Sóknin fékk lóð fyrir kirkjuna við götuna Fjörgyn og árið 1991 hófust framkvæmdir og kirkjan varð fokheld árið 1995. Þetta var ung sókn og margir sem lögðu hönd á plóginn við bygginguna í sjálfboðaliðsstarfi á þessum árum. „Þetta var svakaleg vinna, en þetta tókst,“ segir Magnús. Það var svo Bjarni Grímsson sem tók við af honum sem formaður árið 1995 og undir hans stjórn var kirkjan kláruð og vígð 18. júní 2000.
Við báðum Magnús að skrifa stuttan texta og rifja upp gamla tíma við byggingu kirkjunnar í tilefni af 25 ára vígsluafmælinu í hátíðarguðsþjónustunni nk. sunnudag um leið og við birtum einstakar myndir úr safni hans frá byggingartímanum. Hér kemur texti Magnúsar:
LEIFTRANDI FORYSTA SÉRA VIGFÚSAR OG ELÍNAR
„Vígsludagurinn árið 2000 er sterkur í minningunni. Leiftrandi forysta sóknarprestsins séra Vigfúsar Þórs Árnasonar og eiginkonu hans, Elínar Pálsdóttur, frá fyrsta degi endurspeglaði öflugt safnaðarstarf lærðra sem leikra. Enda komu til starfa með honum prestar þar sem krafturinn, gleðin og næmni fyrir trúnni, kærleik og umhyggju fyrir starfinu kom skýrt fram. Við starfi sóknarprestsins þegar hann lét af störfum, tók svo Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands og nú er séra Arna Ýrr Sigurðardóttir sóknarprestur.

Vorið 1992 þar sem pylsur voru grillaðar í lok barnastarfsins þá önnina. Ingjaldur Eiðsson, einn af máttarstólpunum í sókninni á byggingartímanum, stóð sína plikt við grillið. Með honum eru hjónin séra Vigfús Þór Árnason og Elín Pálsdóttir.
KROSSINN Á LÓÐINNI - AFLAGÐUR RAFMAGNSSTAUR
„Vigfús Þór sagði oft að starfið væri eitt og húsið annað, en öflugt kirkju- og safnaðarstarf þarf aðstöðu. Fyrst var starfið í Félagsmiðstöðinni Fjörgyn í Foldaskóla. Fljótlega fékk söfnuðurinn lóð við götuna Fjörgyn og eitt af fyrstu verkum Vigfúsar Þórs var að fá aflagðan rafmagnsstaur, sem var fyrir botni Grafarvogs.
Ingjaldur Eiðsson sóknarnefndarmaður tók að sér að laga rafmagnsstaurinn til og koma honum fyrir á kirkjulóðinni þar sem hann stendur enn. Hlutföllin í rafmagnsstaurnum þegar búið var að saga hann til voru eins og í krossi.
Við krossinn voru helgistundir og guðsþjónustur. Frábær hugmynd, en rafmagnsstaurinn hafði áður það verkefni að flytja birtu í lífið, einmitt eins og kristin trú snýst um.“

Ingjaldur Eiðsson sóknarnefndarmaður sagði rafmagnsstaurinn og kom honum fyrir á kirkjulóðinni þar sem hann stendur enn. Hlutföllin í rafmagnsstaurnum, þegar búið var að saga hann til, voru eins og í krossi. Frábær hugmynd.
FRAMKVÆMDIR HÓFUST ÁRIÐ 1991
„Vinna við byggingu kirkjunnar hófst 1991 og á tveimur árum tókst að steypa hana upp og gera fokhelda. Byggingartíminn var skammur og oft á brattann að sækja í verkefninu, en með öflugri forystu tókst að gera húsið fokhelt árið 1993.
Vígsludagurinn árið 2000 var mikil hátíðarstund, bjartur, fagur og ógleymanlegur. Í byggingunni er að finna táknmyndir kristinnar trúar gegnum aldirnar, enda lögðu arkitektarnir Hilmar Björnsson og Finnur Björgvinsson sig sérstaklega fram að leiða þær fram.
Í hönnun, verkfræðivinnu, byggingarvinnu og fjármögnun byggingarinnar þurfti að klífa brattar brekkur, en þetta tókst undir sterkri forystu. Það var fagnaðarstund þegar kirkjusalur á neðri hæð var vígður 12. desember 1993, þá var starfsemin komin undir þak á einum stað.
Kirkjan í dag býður fjölbreytta möguleika á kirkju- og safnaðarstarfi, sem Grafarvogsbúar nýta sér en einnig margir aðrir þegar tækifæri gefst. Öflug forysta skiptir miklu máli. - Magnús Ásgeirsson.“ - JGH

Glaðst á góðum degi og framkvæmdir við kirkjubygginguna í fullum gangi.

Framkvæmdir við byggingu kirkjunnar hófust árið 1991. Hér er verið að steypa plötuna fyrir aðalsal kirkjunnar.

Það var fagnaðarstund þegar kirkjusalur á neðri hæð var vígður 12. desember 1993, þá var starfsemin komin undir þak á einum stað - en sóknin hafði haft afnot af Fjörgyn í Foldaskóla fyrir kirkjustarfið.


