Hús og hverfi eru fyrir fólk, en ekki einföld leið stjórnvalda til að handstýra fólki

11. nóvember 2025

Hinn kunni arkitekt Magnús Skúlason fer hörðum orðum um þéttingarstefnu borgarinnar í aðsendri grein í Morgunblaðinu sl. föstudag. Yfirskrift greinarinnar er Borgarlína í skugga eigin metnaðar  og segir Magnús meðal annars að hús og hverfi séu fyrir fólk, en ekki einföld leið stjórnvalda til að handstýra fólki. 


„Þegar skipulag borgarinnar er mótað út frá einstrengingslegum hugmyndafræðilegum markmiðum án þess að gaumur sé gefinn að raunverulegum þörfum íbúa er betur heima setið en af stað farið. Hús og hverfi eru fyrir fólk, en ekki einföld leið stjórnvalda til að handstýra fólki og þörfum þess,“ segir Magnús í grein sinni.


Hann vill bæta núverandi stætósamgöngur og hætta við borgarlínuna sem hann telur óhagkvæma: „Það er orðið löngu tímabært að staldra við og hugsa þessi mál upp á nýtt. Nærtækari og hagkvæmari leið við að ná hinu göfuga markmiði um breyttan ferðamáta væri t.d. að  bæta þegar í stað núverandi almenningssamgöngur verulega, með fleiri sérakreinum fyrir strætó, betri þjónustu og ódýrari fargjöldum, ekki síst fyrir börn, ungmenni og eldri borgara.“ 

Hús og hverfi eru fyrir fólk, en ekki einföld leið stjórnvalda til að handstýra fólki,“ segi Magnús og vill hverfa frá borgarlínunni og þeirri stefnu að hverfin miðist við hana en liðka þess í stað til fyrir núverandi strætósamgöngum til að bæta almenningssamgöngur. 

Hér má lesa grein Magnúsar Morgunblaðinu í heild sinni:


„Reykjavíkurborg hefur á síðustu árum lagt mikla áherslu á þéttingu byggðar, einkum meðfram fyrirhugaðri borgarlínu. Hugmyndin er í sjálfu sér göfug, að skapa vistvæna og sjálfbæra borg, en útkoman því miður óvistvæn og jafnvel heilsuspillandi.


Nú þegar rísa hverfi þar sem háar þéttbyggðar blokkir varpa skugga yfir nærliggjandi svæði. Sólarljós og birta, sem er fólki af holdi og blóði sálræn og líkamleg nauðsyn, nær ekki til jarðar. Á norðurslóðum hefur slíkt umhverfi neikvæð áhrif á líðan fólks og skaðar jafnvel geðheilsu, sérstaklega yfir dimmustu mánuðina.


Ekki bætir „byggingarlistin“ úr skák, þar sem blikkklædd hús, í einsleitum stíl, mynda kuldalegt gróðurlítið umhverfi. Slíkur arkitektúr býður ekki upp á mannlíf milli húsa. Þetta er ekki byggð sem fólk vill lifa og hrærast í og kann það að eiga sinn þátt í því að skýra hvers vegna margar nýjar íbúðir seljast treglega þrátt fyrir mikinn skort á húsnæði.


Þegar skipulag borgarinnar er mótað út frá einstrengingslegum hugmyndafræðilegum markmiðum án þess að gaumur sé gefinn að raunverulegum þörfum íbúa er betur heima setið en af stað farið. Hús og hverfi eru fyrir fólk, en ekki einföld leið stjórnvalda til að handstýra fólki og þörfum þess.


Það er orðið löngu tímabært að staldra við og hugsa þessi mál upp á nýtt. Nærtækari og hagkvæmari leið við að ná hinu göfuga markmiði um breyttan ferðamáta væri t.d. að bæta þegar í stað núverandi almenningssamgöngur verulega, með fleiri sérakreinum fyrir strætó, betri þjónustu og ódýrari fargjöldum, ekki síst fyrir börn, ungmenni og eldri borgara. Þá ætti þegar í stað að hætta að skipuleggja og reisa háreist skuggahverfi með mannvirkjum sem ekkert tillit taka til hnattstöðu landsins eða veðurfars.


Þetta væri raunhæfara, manneskjulegra og vistvænna skref í átt að borg fyrir fólk.“


Þess má geta að þeir Magnús og Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði, vöktu mikla athygli sl. vetur þegar þeir stigu fram á sjónarsviðið og gagnrýndu þéttingarstefnu borgarinnar við hönnun hverfa og bygginga. Sjá frétt Visis hér. - JGH

Magnús Skúlason arkitekt og Páll Jakob Líndal, doktor í umhverfissálfræði, vöktu mikla athygli sl. vetur þegar þeir stigu fram á sjónarsviðið og gagnrýndu þéttingarstefnu borgarinnar við hönnun hverfa og bygginga.  (Mynd: Visir/Stefán).