Litla bankaútibúið við Gullinbrú - bæði bankarán og eldur í gámi við bygginguna

20. nóvember 2025

Frétt okkar í gær um að eitt sinn hefði verið lítið útibú Landsbankans á þeim stað á Olís-lóðinni þar sem nýja Glans-þvottastöð Olís er núna, fékk mikla athygli og þónokkir reyndust mjög forvitnir um þessa byggingu. Og þarna var ekki bara banki heldur mun lögreglan hafa haft aðstöðu þarna um tíma.


Ekki hefur okkur tekist að fá góða mynd af útibúinu en þegar leitað er í fréttasafni blaðanna um þetta litla útibú má sjá að þar var framið bankarán í maí árið 2004 - eða fyrir tuttugu og einu ári. Sá sem framdi glæpinn kom inn í bankann vopnaður öxi snemma morguns og hótaði starfsfólkinu. Hann var handtekinn síðar um daginn.


Þá finnst frétt um það frá árinu 2013 að kveikt hafi verið í ruslagámi sem var upp við bygginguna og læstist eldurinn í hlið hússins og olli nokkrum skemmdum. Landsbankinn var þá horfinn með starfsemi sína þarna - en hann sameinaði útibúin á Höfðabakka og Grafarvogi í eitt, stórt og glæsilegt í Grafarholti árið 2009.


Þetta var þá - veröld sem var. Litla bankaútibúið á Olís-lóðinni átti sér sína sögu - eins og kannski öll bankaútibú. -JGH 

Þessi mynd fylgdi frétt Vísis um íkveikjuna í ruslagámi við bygginguna árið 2013 en Landsbankinn hafði flutt starfsemina í Grafarholtið nokkrum árum áður - eða árið 2009 - þegar útibúin við Höfðabakka og Grafarvog voru sameinuð.  (Mynd Vísis/ Daníel).