Mótmæla bálstofu í Gufuneskirkjugarði - fróðleg grein frá þremur íbúum

19. janúar 2026
Þrír Grafarvogsbúar skrifuðu mjög svo málefnalega grein í Vísi á dögunum þar sem þeir mótmæla áformum um bálstofu á Hallsholti í Gufuneskirkjugarði sem sögð eru byggja á deiliskipulagi frá árinu 2000. Þetta eru þau Þorsteinn Jóhannsson, íbúi í Vallarhúsum 59, Arnar Össur Harðarson, íbúi í Veghúsum 17 og Hlín Gísladóttir, íbúi í Fífurima 20

Í greininni segir meðal annars: „Samkvæmt nýlegum tillögum mun byggð færast nær kirkjugarðinum. Í þeim tillögum er m.a. gert ráð fyrir íbúðabyggð á milli Hallsvegar og Gagnvegar. Hús sem byggð verða á því svæði gætu orðið í um 95 metra fjarlægð frá reykháfi væntanlegrar bálstofu. Einnig er stefnt að uppbyggingu íbúðabyggðar austan Víkurvegar. Það verður því í raun sama hver vindáttin er, útblástur frá bálstofunni mun ávallt berast yfir íbúðabyggð, skóla eða leikskóla. 

Við vekjum sérstaka athygli á því að í um 350 m fjarlægð frá fyrirhugaðri staðsetningu, í stefnu ríkjandi vindáttar, er leikskólinn Fífuborg.

Við teljum staðsetningu bálstofu í Gufuneskirkjugarði vera tímaskekkju. Það er ekkert sem krefst þess að bálstofa sé í kirkjugarði eða í eða við kirkju. Bálstofan mun þjóna öllu landinu og því má gera ráð fyrir því að stór hluti af duftkerjum verði jarðsett í öðrum kirkjugörðum. 

Bálstofa/líkbrennsla er atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun en líkbrennslur eru starfsleyfisskyldar hjá heilbrigðisnefnd, sbr. 64. tl. IV. viðauka laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Mengandi starfsemi, líkt og hér um ræðir, á ekki heima í nágrenni við íbúðabyggð, leikskóla, skóla, íþróttasvæði og sundlaug, eins og verður, ef bálstofan verður reist í Gufuneskirkjugarði.“

Er Gufuneskirkjugarður réttur staður fyrir nýja bálstofu? Sitt sýnist hverjum, eins og gengur.

Þá segja þau í grein sinni að Kirkjugarðarnir hafi vitnað til bálstofunnar í Vestfold í Noregi sem megunarlausrar líkbrennslu og gera athugasemdir við þær fullyrðingar.


„Búnaður fyrirhugaðrar bálstofu í Gufuneskirkjugarði verður sambærilegur við þann búnað sem notaður er í Vestfold og það var einmitt horft til þeirrar bálstofu þegar val á búnaði var ákveðið.


Rekstur bálstofunnar í Vestfold hófst árið 2010. Í eftirlitsskýrslu heilbrigðiseftirlitsins í Vestfold frá því í nóvember 2022 kemur fram að kröfur í starfsleyfi um hitastig í eftirbrennsluhólfi og kröfur um bæði útblásturshraða og útblásturshitastig í reykháfi hafi ekki verið uppfylltar.“


Fróðleg grein og málefnaleg. - JGH


Sjá má grein þremenninganna í Vísi í heild sinni hér. 


Sjá skýrslu kirkjugarðsráðs hér: