Ballið að byrja - stærsta þorrablót landsins hjá Fjölni í Egilshöll. 25 rétta veisla

17. janúar 2026

Það er allt að verða klárt fyrir stærsta þorrablót landsins þetta árið - þorrablót Grafarvogs sem Fjölnismenn halda í Egilshöllinni.


Þegar Grafarvogur.net leit inn í salinn til að kanna gang mála upp úr klukkan átján áðan voru veislustjórar að æfa á fullu, búið að dekka upp á sérlega glæsilegan hátt, fjöldi öryggisvarða á staðnum og barþjónar tilbúnir með blöndunartækin; góða hristara.


Það stefnir í megastuð í Höllinni í kvöld, hinni einu sönnu Egilshöll okkar Grafarvogsbúa.


Það er Múlakaffi sem sér um kræsingarnar og eðli málsins samkvæmt var einn og einn diskur kominn í hús enda gert ráð fyrir vel yfir þúsund manna veislu. Það verður ekki gengið í gegnum súrt og sætt í kvöld heldur verður þarna boðið upp á gott stuð með súrmeti; 25 rétta veislu með nýmeti handa þeim sem eru ekki alveg klárir í sterkustu bitana.


Sameiginlegt þorrablót HK og Breiðabliks hefur til þessa verið stærsta þorrablót landsins en núna halda félögin sitt hvort blótið og þar með skýst Þorrablót Grafarvogs á toppinn.


Ballið er að byrja! Hér sé stuð!  Góða skemmtun. - JGH

Veislustjóranir æfa hér á fullu á nítjánda tímanum í kvöld. Siggi Gunn ekur hér með Sölku Sól á matarvagni syngjandi glaða. Þau í æfingagöllum enda var þetta jú æfing. Betri klæðnaðurinn bíður kvöldsins.

Veisluborðið svignar; 25 rétta veisla, takk fyrir. Þorrablót Grafarvogs er jú alvöru skemmtun.

Einn og einn diskur kominn í hús enda stærsta þorrablót landsins þetta árið.

Dansgólfið bíður að að borðhaldi loknu.

Þorrablót Grafarvogs, góða kvöldið.

Fallegt er hangikjötið í þessari 25 rétta veislu.

Glösin komin á sinn stað - það verður sæmilegt uppvask eftir þetta partý.

Þessir veislustjórar sjá um að það verður hlegið, sungið, trallað og tjúttað af krafti í kvöld.

Hringborðin ýta undir hringborðsumræður.