Kröftugir Korpúlfar: „Svona er þetta á öllum félagsfundum Korpúlfa“
LÍF OG FJÖR HJÁ KORPÚLFUM. Hann var þéttsetinn salurinn á félagsfundi Korpúlfa þegar Grafarvog.net bar að garði á félagsfundinn í Borgum eftir hádegi í dag og rífandi stemning. Sannast sagna voru fleiri mættir en ég átti von á.
„Svona er þetta alltaf á öllum félagsfundum,“ sagði Theodór Blöndal, formaður Korpúlfa, sem tók á móti mér ásamt Birnu Róbertsdóttur, verkefnastjóra hjá Reykjavíkurborg sem er allt í öllu í Borgum. „Birna er Borgarstjórinn,“ bætti Theodór við.

Þéttsetinn salurinn á félagsfundi Korpúlfa í dag - þeim síðasta á vorönninni.
Korpúlfar eru félag eldri borgara í Grafarvogi með yfir tólf hundruð félagsmenn. Það er gífurleg vinnusemi í félaginu og mikil sjálfboðavinna; raunar lagt upp úr henni.
Félagið var stofnað árið 1998 – eða fyrir 27 árum – og til að byrja með var það ekki með neina aðstöðu en fékk inni í Miðgarði við Gylfaflöt. Það var svo vorið 2005 sem félagið fékk inni á Korpúlfsstöðum en sprengdi fljótlega það húsnæði af sér en fékk svo núverandi aðstöðu í Borgum við Spöngina árið 2014.
„Upphaflega tókum við fólk alls staðar að en aðsóknin var svo mikil að við urðum að gera einhverjar ráðstafanir og halda okkur við Grafarvogsbúa,“ segir Birna.
REGÍNA ÁSVALDSDÓTTIR HÁLFGERÐ GUÐMÓÐIR FÉLAGSINS
Hún bætir því við að Regína Ásvaldsdóttir, núverandi bæjarstjóri í Mosfellsbæ, sé eins konar guðmóðir Korpúlfa. „Hún var fyrsti framkvæmdastjóri Miðgarðs og hafði kynnst íbúalýðræði í Noregi. Hún stóð að því að senda út bréf til allra íbúa í Grafarvogi 67 ára og eldri og kynna stofnun félagsins.“
Theodór segir að engin félagsgjöld séu í félaginu og allt unnið meira og minna í sjálfboðavinnu. „Við erum með reikning í banka og látum bara vita ef sjóðurinn er tómur og það vantar fé. Viðbrögðin eru ávallt góð.“
Nokkrar öflugar nefndir eru starfandi í félaginu, eins og skemmtinefnd, ferðanefnd, menningarnefnd og fræðslunefnd. Þá er mjög öflugur gönguhópur sem hittist á hverjum degi og fer hann mjög stækkandi – og allt að sextíu manns sem ganga saman í nokkrum mismunandi hópum eftir vegalengdum.
ÍTALÍUFERÐ Á SUNNUDAGINN
„Hér er mjög sterk ferðanefnd sem skipuleggur þrjár til fjórar ferðir til útlanda á ári. Þess er gætt að það fari ekki fleiri en á milli fjörutíu til fimmtíu í hverja ferð. Næsta ferð er til dæmis til Ítalíu nk. sunnudag og í hana fara 47 manns,“ segir Birna.
„Það fyrirkomulag er haft við skráningar í þessar ferðir að fyrstir koma, fyrstir fá,“ bætir hún við.

Dansbandið steig á stokk á félagsfundinum í dag.
„Við erum sjálfstætt félag og ekki í Landssambandi eldri borgara. Margir félagsmenn okkar eru raunar í Landssambandi eldri borgara í gegnum önnur félög,“ segir Theodór.
Birna segir að Borgir iði af lífi í hádeginu þegar allt að 120 manns borði þar reglulega en mjög gott eldhús er á staðnum þótt maturinn sé fenginn annars staðar frá.
„Húsið er opið allan daginn og um að gera fyrir eldri borgara í Grafarvogi að líta hingað inn og njóta þess góða samfélags sem hér er að finna í Borgum á daginn.“
Skemmtilegt!
Kröftugt félag, Korpúlfarnir! - JGH

Korpúlfarnir voru stofnaðir árið 1998 eða fyrir 27 árum.