Dansbandið fór á kostum hjá Korpúlfum

30. apríl 2025

STEMNING HJÁ KORPÚLFUM.  Það var heldur betur stuð og stemning á félagsfundi Korpúlfa í Borgum eftir hádegi í dag þegar gamlar kempur í stuðhljómsveitinni Dansbandið stigu á stokk og tóku lagið. Þetta var síðasti almenni félagsfundurinn á vorönninni.


Þéttsetinn salurinn tók að sjálfsögðu vel undir. Þarna stóðu menn í stafni sem kunna sitt fag og eru hoknir af reynslu af hefðbundnu spiliríi á dansleikjum. Ekki laust við að andi Ragga Bjarna og Ingimars Eydals svifi yfir vötnum; Hótels Sögu- og Sjallafjör.


Hljómsveitina skipa Grímur Sigurðsson, Pálmar Ólafsson og Kristján Hermannsson og sannast sagna hafa þeir tengingu við Ragnar og Ingimar. Grímur spilaði bæði með hljómsveit Ragga Bjarna og Ingimars – raunar í þrettán ár fyrir norðan með Ingimar og því alvanur Sjallanum.

Þessir hafa greinilega áður komið fram. Frá vinstri: Grímur Sigurðsson, Pálmar Ólafsson og Kristján Hermannsson.

Hljómborðsleikarinn Pálmar Ólafsson spilaði undir um tíma hjá Ómari Ragnarssyni fyrir margt löngu og Kristján Hermannsson stóð í ströngu í Þórskaffi þegar það var og hét.


Vel til fundið hjá Korpúlfum að fá þá félaga til að létta sér lund en þess má geta að Dansbandið tók ekkert fyrir spilamennskuna heldur kom, sá og sigraði í sjálfboðavinnu. - JGH