Grafarvogsbúar - nú mótmælum við áformum þeirra af fullum krafti um helgina!

2. maí 2025
Kæru Grafarvogsbúar, þetta er helgin sem getur ráðið úrslitum í mótmælum okkar gegn áformum núverandi meirihluta um þéttingu byggðar í hverfinu. Vert er að benda á vefinn https://okkargrafarvogur.com/ til að auðvelda sér að senda inn mótmæli en þar eru leiðbeiningar sem hjálpa til við að senda inn umsögn og mótmæli en sannast sagna hefur borgin ekki gert þetta sem auðveldast fyrir íbúana.  

Grafarvogur.net tekur afstöðu í þessu máli og hefur lýst því yfir frá því vefurinn fór í loftið að hann er á móti þéttingu byggðar í Grafarvogi.

Ég hef sent inn umsögn og mótmælt. Ég sakna þess raunar að geta ekki séð umsögnina og gengið að henni hvenær sem er ásamt öllum umsögnum og mótmælum sem hafa verið send inn í gáttina. 

Þá saknaði ég þess sömuleiðis, eftir að hafa skilað inn umsögninni, að sjá ekki á afgerandi hátt í gáttinni eða með tölvupósti til mín; „Þín umsögn er nú komin til skila!“ Ekkert á að fara á milli mála.

HÉR KEMUR UMSÖGN MÍN GEGN ÞÉTTINGUNNI

„Góðan dag.
Ég, Jón G. Hauksson, íbúi í Grafarvogi, mótmæli harðlega allri þéttingu byggðar í Grafarvogi og að borgin skuli leyfa sér að ganga á græn útivistarsvæði; hjóla- og göngustíga; skerða útsýni íbúa; taka niður tré og gróður á grænum svæðum sem vinna hefur verið lögð í að rækta; auka stórlega álag á alla innviði, eins og skóla og vegi - og síðast en ekki síst að breyta skipulagi sem íbúar hafa gengið að sem vísu að stæðist og hægt væri að treysta á þegar þeir hafa keypt sér húsnæði í Grafarvogi.

MIKIÐ JARÐRASK Í GRÓNUM HVERFUM
Þetta heitir að koma algjörlega í bakið á íbúunum sem hafa unað vel við hag sinn í grónum Grafarvogi en horfa nú fram á algjöran yfirgang borgarinnar við óþarfa þéttingu þar sem byggt verður úti um allt á grænum svæðum og litlum blettum með tilheyrandi jarðvegsraski alveg ofan í íbúðum sem fyrir eru og þar sem treyst hefur verið á að núverandi skipulag með grónum hverfum í Grafarvogi stæði.

ÞRENGT VILJANDI AÐ VEGAKERFINU
Þá er það algerlega óskiljanlegt að þétt sé svo mjög að vegakerfinu og gatnamótum í Grafarvogi með því að troða þar niður húsum og íbúðum algerlega að óþörfu og koma þannig í veg fyrir að hægt verði að lagfæra og betrumbæta umferðarmannvirki á næstu árum - en stórkostleg aukning á umferð blasir við í Grafarvogi, hvað sem hver segir, með stóraukinni byggð í Blikastaðalandi; (sem tilheyrir Mosfellsbæ), Keldnalandi, á Ártúnshöfða, Bryggjuhverfi - og síðast en ekki síst vegna hins stóra verslunarsvæðis, á stærð við Skeifuna, á Korputúni en framkvæmdir eru þar þegar hafnar.

GENGIÐ HARKALEGA GEGN VILJA ÍBÚA
Það er sömuleiðis með öllu ólíðandi að gengið sé svo harkalega gegn vilja Grafarvogsbúa í þessum máli en mikill einhugur hefur verið á meðal þeirra gegn þéttingarstefnunni og þeim hugmyndum sem hafa verið kynntar. Nægir þar að nefna mótmælin á íbúafundinum í Borgum í Spönginni 20. mars sl. þar sem allt fór í háaloft og fundarmenn kyrjuðu allir sem einn: Við mótmælum þessum tillögum ykkar í öllum atriðum!

ALEXANDRA: TEKIÐ VERÐI TILLIT TIL ÓSKA GRAFARVOGSBÚA
Alexandra Briem, borgarfulltrúi og varafulltrúi umhverfis- og skipulagsráðs, sagði á fundinum í Borgum 20. mars sl., að mótmælin væru kröftugri en hún átti von á og lofaði að tekið yrði tillit til óska Grafarvogsbúa í þessu máli.

Mótmæli mín snúa að öllum fyrirhuguðum þéttingarréttum í Grafarvogi; við Borgarveg, Breiðavík, Fróðengi, Gagnveg, Hverafold, Langarima, Mosaveg, Rimaflöt, Sóleyjarrima, Stararima, Starengi, Veghús, Vesturfold og Völundarhús.

Virðum vilja Grafarvogsbúa en borgarfulltrúar eru í vinnu fyrir borgarbúa en eiga ekki að vinna gegn þeim.

Virðingarfyllst; Jón G. Hauksson.“