Fjölmenni við útför Elínar Pálsdóttur í Grafarvogskirkju í dag
Mikið fjölmenni var við útför Elínar Pálsdóttur, eiginkonu Vigfúsar Þórs, frá Grafarvogskirkju í dag. Athöfnin var einstaklega falleg og látlaus og í anda Elínar sjálfrar.
Ég átti þess kost að kynnast Elínu þegar ég sat í sóknarnefnd Grafarvogskirkju í um tíu ára skeið. Hér fór einstök sómakona sem nú hefur kvatt; þægileg, látlaus, viðræðugóð og kom miklu í verk - og það mjög áreynslulaust.
Hún var fyrsti formaður Safnaðarfélagsins og lagði sig alla fram við að byggja sóknina upp ásamt eiginmanni sínum, séra Vigfúsi Þór. Samfélagið hér í Grafarvogi á þeim hjónum mikið að þakka.
Prestar voru Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, og séra Sigurður Arnarson, sóknarprestur í Kópavogskirkju, en hann starfaði hér á fyrstu árum safnaðarins. Sigurður flutti minningarorðin sem einkenndust af því hversu vel hann þekkti Elínu.
Blessuð sé minning Elínar Pálsdóttur. - JGH

Líkmenn voru fjölskyldumeðlimir og vinir. Um bálför verður að ræða. Kista Elínar var lögð fyrir framan anddyri kirkjunnar þar sem kirkjugestir gátu kvatt Elínu í hinsta sinn.

Mikið fjölmenni var í kirkjunni. Samfélagið hér í Grafarvogi á henni - og þeim hjónum - mikið að þakka.

Einsöngvarar voru þau Gissur Páll Gissurarson og Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) - og sungu eftirminnilega vel. Tónlistarveisla af bestu gerð.

Hvert sæti var þétt skipað í kirkjunni enda Elín vinamörg.

Veitingar voru í safnaðarsal kirkjunnar að athöfn lokinni. Hafi einhver ein manneskja bakað og galdrað fram gómsætt gúmmulaði í safnaðarheimilinu við guðsþjónustur og aðra viðburði á vegum kirkjunnar var það Elín Pálsdóttir.

Þær stóðu heiðursvörð við útför Elínar í dag.

Séra Sigurður Arnarson, sóknarprestur í Kópavogi, flutti minningarorð um Elínu og einkenndist minningin af því hversu vel hann þekkti hana.

Kista Elínar borin út úr kirkjunni.

Elín Pálsdóttir. Fædd 16. júní 1948 - dáin 9. ágúst 2025. Blessuð sé minning hennar.

Prestar voru Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, og séra Sigurður Arnarson, sóknarprestur í Kópavogskirkju.

Látlaus en engu að síður tignarleg athöfn.