Jæja, loksins eitthvað að gerast - snjallljósin jafnvel í gagnið í lok næstu viku. Sumir nýju stauranna virðast skakkir
Það hefur komist töluverð hreyfing á hlutina við Höfðabakkann eftir að Grafarvogur.net flutti fréttir fyrir helgi af ótrúlegu sleifarlagi og gaufi í framkvæmdum - og birti því til stuðnings fjölda mynda.
Þegar við vorum þarna á ferð í dag var talsverður gangur í verkinu við að setja upp ný ljós og sögðu karlarnir á staðnum að ekki næðist að skipta út ljósunum í þessari viku en mjög líklega yrði það í lok þeirrar næstu. Þarna lágu ný ljós og kaplar í sandinum - og menn að verki. Loksins. Það veit vissulega á gott að eitthvað sé að frétta. Framkvæmdir hófust um mitt sumar.
Þarna voru menn frá verktakafyrirtækinu Rafafli sem stóðu vaktina í ljósamálunum við Höfðabakkann í dag en það er fyrirtækið Krafla sem annast heildarframkvæmdirnar. Verkfræðistofan VSÓ hefur eftirlit með verkinu.
Það voru Kröflumenn sem reistu nýju staurana - og þegar ég hafði á orði að sumir þeirra virtust halla - væru skakkir - var því ekki mótmælt.
Enginn þeirra nálgast þó skakka turninn í Písa hvað varðar hallanda. - JGH

Jæja, loksins eitthvað að frétta. Smá hreyfing komin á verkið.

Í hádeginu í dag. Gömlu tímastilltu klukkuljósunum jafnvel skipt út í næstu viku - og þá taka snjalljósin við.


