Fullveldisdagurinn 1918 í skugga Spænsku veikinnar - athyglisverð færsla Magnúsar Ásgeirssonar
Grafarvogsbúinn Magnús Ásgeirsson er með athyglisverða færslu á FB-síðu sinni í dag þegar hann fer í fáeinum orðum um fullveldisdag okkar Íslendinga, 1. desember, sem er í dag. Hann bendir á að fullveldisdagurinn 1918 hafi verið haldinn í skugga Spænsku veikinnar og þennan vetur hafi verið óvenju kalt - enda oftar en ekki talað um „frostaveturinn mikla árið 1918“.
Hér kemur færsla Magnúsar: „Fullveldisdagurinn 1. desember, dagur sem aldrei má gleymast, það fer frekar lítið fyrir honum þessi árin og hátíðleikinn hefur fjarað út með árunum, nú er þetta eins og hver annar virkur dagur, sem hann er þó í raun ekki, heldur mikilvægur dagur í Íslandssögunni.
Á þessum degi tóku Sambandslögin gildi, en þar kom m.a. fram að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki. Íslenski fáninn var dreginn að húni í fyrsta skipti sem fullgildur þjóðfáni þennan dag.
Dagurinn mun hafa verið heldur hráslagalegur. Engin hátíðarhöld voru þennan dag vegna spænsku veikinnar. Veturinn þá var harður, mikill frostavetur, Kötlugos hófst 12. október og stóð til 4. nóvember.
Spænska veikin blossaði upp á haustdögum 1918 og létust hundruð manna.Lýsingar eru skelfilegar, en framganga læknisins sem annaðist margan sjúklinginn var einstök og sagt er að hann hafi ekki unnt sér mikillar hvíldar; Maggi Júlíusson læknir á þeim tíma var áhugamaður um búskap og reisi sér býli í útjaðri Reykjavíkur.
Klambra skýrði hann býlið, eftir fæðingarbæ sínum Klömbrum í Vestur Hópi í Húnavatnssýslu. Klambratún dregur nafn sitt af bænum.
Þetta er aðeins brot af sögu þessa merka dags, 1. desember, sem er fánadagur.“ - JGH

Magnús Ásgeirsson um 1. desember 1918. „Dagurinn mun hafa verið heldur hráslagalegur. Engin hátíðarhöld voru þennan dag vegna spænsku veikinnar.“

Íslenski fáninn var dreginn að húni í fyrsta skipti sem fullgildur þjóðfáni þennan dag.

Kjarvalsstaðir eru við Klambratún. „Maggi Júlíusson læknir á þeim tíma var áhugamaður um búskap og reisti sér býli í útjaðri Reykjavíkur. Klambra skýrði hann býlið, eftir fæðingarbæ sínum Klömbrum í Vestur-Hópi í Húnavatnssýslu. Klambratún dregur nafn sitt af bænum.“

