Hvítasunnan misst svolítið af heilagleika sínum - núna ein mesta ferðahelgi ársins

8. júní 2025
HVÍTASUNNAN! Hvítasunnan er auk páska og jóla ein af sameiginlegum höfuðhátíðum kristinnar kirkju. Hátíðin markaði upphaflega lok páskatímans sem stóð í 50 daga, en varð síðar að sjálfstæðum minningardegi um það sem kallað er úthelling heilags anda.

Á vísindavef Háskóla Íslands segir: „Nú á dögum hefur hvítasunnan misst mikið af heilagleika sínum í huga fólks og er orðin að langri helgi og fyrstu ferðahelgi ársins ef vel viðrar. Sums staðar er hún þó enn notuð til ferminga. 

Ástæður þess að hvítasunnan hefur gleymst á þennan hátt eru ugglaust þær að tilefni hennar er huglægara og afstæðara en tilefni jóla og páska. Þá hafa færri trúarlegir og félagslegir siðir og venjur tengst hvítasunnunni en hinum hátíðunum tveimur, en slíkar venjur festa hátíðir gjarnan í sessi langt umfram það sem hið trúfræðilega inntak þeirra megnar að gera.“

Um hvítasunnuna og aðrar hátíðir kirkjunnar má meðal annars lesa í riti Árna Björnssonar þjóðháttafræðings Saga daganna. - JGH