Hvílík 126 ára saga eldspýtna - merkið sagt Móna Lísa vörumerkjanna
EINSTAKT ELDSPÝTNASAFN! Sænska eldspýtnavörumerkið þrjár stjörnur er ekki aðeins það þekktasta í heimi á sviði eldspýtna heldur er það talið svo þekkt um allan heim að því hefur verið líkt við vörumerkið Mónu Lísu.
Það er vel þess virði að líta inn á eldspýtnasafnið í Jönköping sem er 126 ára saga (1845 -1971) framleiðslu í Jönköping sem um árabil var miðpunktur allrar eldspýtnaframleiðslu í Svíþjóð og heiminum - því Svíar hófu vélknúna fjöldaframleiðsla á eldspýtum, einmitt í Jönköping.

Þrjár stjörnur - safety matches. Þekktasta vörumerki í heimi á sviði eldspýtna og svo þekkt að það hefur verið nefnt Móna Lísa merkimiða.
Ævintýrið byrjaði árið 1845 og þá með fosfórseldspýtum sem síðar urðu bannaðar þar sem fjöldi fólks sýktist við framleiðsluna en einkenni veikindanna komu yfirleitt fyrst fram í skemmdum tönnum starfsmanna.
Um tíma voru börn notuð við að framleiða eldspýturnar og saga safnsins er á vissan hátt helguð þeim eins og sjá má á upphafsmyndinni hér að ofan sem er kynningarplakat safnsins. Safnið er í húsinu þar sem framleiðslan fór lengst af fram en það var reist árið 1848.
Það voru bræðurnir Johan og Carl Lundström sem hófu eldspýtnaframleiðsluna í Jönköping árið 1845. Það var svo árið 1853 að öryggiseldspýtur (safty matches) voru framleiddar eftir uppfinningu efnafræðingsins og Svíans Gustaf Erik Pasch.
Hjólin í framleiðslu eldspýtna fóru hins vegar að snúast fyrst fyrir alvöru þegar Alexander Lagerman fann upp vél til að fjöldaframleiða eldspýtur.
Eldspýtnaframleiðsla í Jönköping lagðist af árið 1971 og færðist til tveggja bæja í Svíþjóð - en hvílík 126 ára sænsk velgengnissaga í Jönköping.
Grafarvogsbúar - það er vel þess virði að líta inn á þetta öflug safn ef þið eigið leið um Jönköping. - JGH

Talan þrír hefur sérstaka töframerkingu í mörgum löndum. Það er ástæðan fyrir því að þrjú tákn sáust oft í vörumerkjum hér á árum áður.

Það er meira en að segja það að finna upp vél sem býr til svona litla pinna.

Viðurinn í eldspýturnar var eingöngu ösp - hún hentaði langbest. Kúnstin var að fletja hana svona niður og svo þurfti að saxa í eldspýtnapinna.

Alexander Lagerman sem fann upp vélina til að fjöldaframleiða eldspýtur.

Börn komu mjög við sögu við framleiðslu á eldspýtunum í fyrstu. Það breyttist svo þegar tæknin ruddi sér til rúms.

Eldspýtnasafnið er í þessari byggingu í Jönköping sem reist var árið 1848 og var um árabil miðpunktur eldspýtnaframleiðslu í heiminum.

Þetta er vélin sem Alexander Lagerman smíðaði og við það urðu þáttaskil - fjöldaframleiðsla hófst á fullu.