Hvernig væri nú að borgin færi að slá grasið - og líka á gangstéttunum?
Hvernig væri nú að borgin slakaði á með hina gráðugu þéttingarstefnuna sína og færi að sinna umhverfinu okkar í Grafarvogi betur og slá til dæmis grasið við götur og gangstéttir?
Borgin stendur sig engan veginn nægilega vel þegar kemur að umhirðu og snyrtimennsku í Grafarvogi.
Það er ekki nóg að vera mánuðum saman að helluleggja niðri á Hlemmi fyrir 2 milljarða króna og stæra sig svo af því að torgið sé orðið bíllaust - líkt og Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður umhverfis og skipulagsráðs Reykjavíkur , gerði í fréttum um daginn.
Reykjavíkurborg þarf að sinna úthverfunum af miklu meiri þrótti í umhverfismálum. Það er ekki nóg að ganga bara um með teikniblokkir og teikna blokkir þvert gegn vilja íbúa ef þjónustuhlutverkið situr á hakanum.
Íbúar í Grafarvogi eru löngu farnir að huga að vorverkunum og slá blettina. Hvernig væri að borgin sýndi lit og tæki fram sláttuvélarnar og þjónustaði hverfið í stað þess að vinna gegn íbúunum sem greiða sitt útsvar og gjöld?
Það getur ekki verið henni ofvaxið - líkt og grasið! - JGH

Ekki gott og sýnir vanrækslu borgarinnar í hirðusemi. Þétt gras vex víða á milli gangstétta og vegkanta. Það þarf að fara að „slá gangstéttarnar“.

Hvernig væri að borgin sýndi lit og tæki fram sláttuvélarnar og þjónustaði hverfið í stað þess að vinna gegn íbúunum með þéttingu byggðar - íbúum sem greiða sitt útsvar og gjöld?