Grænt og þétt. Hvernig verður með umferðina til og frá Borgarhöfða?

18. október 2025

Margir Grafarvogsbúar velta því fyrir sér hvernig umferðin verði til og frá Borgarhöfða, hinu nýja risavaxna hverfi á Ártúnshöfðanum - og kannski ekki síst hvernig umferðin þaðan tengist væntanlegri Sundabraut - nú eða Sundagöngum verði þau fyrir valinu. Ennfremur liggur fyrir að umferð um Höfðabakkann mun stóraukast með þessu nýja 20 þús. manna hverfi.


Ekki er að sjá neinar tengingar við Sundabraut í því skipulagi sem hefur verið kynnt á slóðinni Borgarhöfði.is og er ástæðan sögð sú að ekki er búið að ákveða hvor leiðin verður fyrir valinu; brú eða göng. Verði brúin niðurstaðan verður hún ógnarstór og mun svo sannarlega setja svip sinn á umhverfið við sundin blá. Auðvitað hefði mátt setja þær hugmyndir sem liggja fyrir um brúna þarna inn á hina glæsilegu teikningu á vefnum sem fyrirtækið Onno  vann um Borgarhöfðann og kynnti fyrir rúmri viku.


Í stórhuga áformum um Borgarhöfðann er gert ráð fyrir 20 þús. manna hverfi og 8 þús heimilum. Ekki liggur alveg ljóst fyrir hversu mörg bílastæði verða fyrir þessi 8 þús. heimili. Enn er ekki búið að skipuleggja nema um 40% af hverfinu.


Þó kemur fram að á fyrsta uppbyggingarsvæði Borgarhöfðans, skipulagssvæði 1, verða allt að 1.570 íbúðir og um 2.020 bílastæði. Þar af verða 1.175 samnýtt leigustæði  neðanjarðar og um 200 samnýtt  á yfirborði. Eða um 1,3 stæði á íbúð.


Þá segir að undir íbúðahúsum verði almennt sérmerkt bílastæði ætluð íbúum en í vissum húsum með blandaða nýtingu verða opin bílastæðahús. Ekki fer á milli mála að mjög er lagt upp úr að íbúar noti Borgarlínuna - sem sögð verður komin árið 2031. Þá er rætt um bæði bíllausan og „bílléttan  lífsstíl“.

Skipulagssvæði 1 er fyrsta uppbyggingarsvæði Borgarhöfðans.

Varðandi stofnbrautir segir að hvort sem leiðinni sé heitið í vinnuna eða út á land sé fljótlegt að komast til allra átta frá Borgarhöfða. Vesturlandsvegur og Reykjanesbraut séu í nokkurra mínútna fjarlægð.


Þannig að fyrir liggur að hin daglega umferð til og frá hverfinu mun fara um Vesturlandsveginn (Ártunsbrekku) - Miklubraut  og Bíldshöfðann til og frá Sæbrautinni.


Þá liggur fyrir að umferð til og frá hverfinu mun liggja um Höfðabakkann og Stórhöfðann en búið er að þrengja að umferð bíla við þau gatnamót líkt og margbúið er að minnast á.


Niðurstaðan er því sú að rætt er um stofnbrautir og götur sem eru þegar kolsprungnar. - JGH

GRÆNT OG ÞÉTT. Í samþykkt meirihlutan fyrir hverfinu segir að  „grófu iðnaðarsvæði sé umbreytt í grænt og þétt íbúðahverfi við lykilstöðvar borgarlínu.“