Enn er ekki búið að tengja snjallljósin

18. október 2025

Enn er ekki búið að tengja snjalljósin við fimm gatnamót Höfðabakkans og hafa þessar umdeildu framkvæmdir staðið yfir frá því um mitt sumar. Tilgangur nýju snjallljósanna á að vera að greiða fyrir umferð og sjá til þess að ökumenn bíði ekki að óþörfu við ljós á gatnamótum þegar engin umferð er um þau - en það gerist oft á heðfbundnum stillanlegum umferðarljósum sem eru stillt eftir klukku.


Nokkurrar óþreyju gætir hjá íbúum í Grafarvogi þar sem núverandi ljós „tala á engan hátt saman“ svo verulega hefur dregið úr flæði umferðar niður Höfðabakkann og í Grafarvoginn. Þannig geta menn lent á rauðu bæði við Dvergshöfðann og Stórhöfðann. Ljósin eru stillt eftir klukku; tímastillt.

Háir staurar setja svip sinn á nýju snjallljósins sem eiga að minnka tafatíma í umferðinni. Enn er ekki búið að tengja nýju snjallljósin.

Helsti kostur snjalllumferðarljósa mun vera sá að þau breyta sér og stilla sig af til að lágmarka tafatíma við gatnamót.


Snjalltæknin fylgist með umferðinni allan sólarhringinn og alla daga, telur nákvæmlega hvers konar umferð er í gangi, hvers konar farartæki fara um gatnamótin, hvort heldur bílar eða hjólandi, ennfremur fjölda gangandi vegfarenda og safnar þannig saman miklu ítarlegri upplýsingum en þegar eru fyrir hendi. - JGH

Þessir gráu kassar við gatnamótin við Höfðabakkann líta sakleysislega út en í þeim „fer allt fram“ þegar kemur að snjalltækninni við umferðarljós.