Arkitektinn: Í Grafarvogskirkju má finna öll helstu tákn kirkjubygginga í gegnum aldirnar
Hilmar Þór Björnsson, annar arkitekanna að Grafarvogskirkju, skrifar grein á FB-síðu sína um þau atriði sem þeir Finnur Björgvinsson arkitekt höfðu í huga þegar kirkjan var teiknuð. Hann segir að í Grafarvogskirkju megi finna öll helstu tákn kirkjubygginga í gegnum aldirnar. Hátíðarmessa verður næstkomandi sunnudag í kirkjunni þar sem 25 ára vígsluafmælis hennar verður fagnað.
Hilmar segir meðal annars þetta um táknin í grein sinni: „Í kirkjunni má finna öll helstu tákn kirkjubygginga í gegnum aldirnar. Þar má nefna að kirkjan er þrískipa, sem tákna heilaga þrenningu og hliðarskipin eru fjögur hvoru megin eins og Guðspjallamennirnir og alls átta sem tákna sjö daga sköpunarinnar og nýtt upphaf.
Og ekki má gleyma „Via Sacra“ sem er hinn heilagi vegur frá fæðingu til eilífðarinnar sem er eftir miðskipi kirkjunnar sem endar með hring við altarið sem táknar eilífðina.“

„Við arkitektarinnar vildum laða fram andlegt hús,“ segir Hilmar Þór og um stærð kirkjunnar segir hann: „Heildarstærð kirkjunnar er um 2.890 fermetrar og aðalrýmið er á tveimur hæðum, 1.000 fermetrar hvor hæð. Þetta er mjög stór bygging og langstærsta Guðshús á landinu. Til samanburðar er Hallgrímskirkja 1.680 fermetrar.“
Hér má svo lesa grein Hilmars í heild sinni:
„Um næstu helgi verður þess minnst að aldarfjórðungur er liðinn frá vígslu Grafarvogskirkju. Grafarvogskirkja var vígð árið 2000 eða þegar 1000 ár voru liðin frá kristnitökunni á Alþingi. Það eru liðin 36 ár síðan samkeppni meðal arkitekta var haldinn um kirkjubyggingu i Grafarvogi og drög að kirkjubyggingunni voru lögð fram.
Við arkitektarnir sem unnum samkeppnina settum okkur vel inn i táknmál kirkjunnar og lásum bækur á borð við „Gengið i Guðshús“ og „Táknmál kirkjunnar“ og ekki bara það heldur fengum við til ráðgjafar afar færa presta sem gerðu okkur grein fyrir að í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði.
ARKITEKTARNIR LEITUÐU RÁÐA HJÁ PRESTUM
Þetta voru þeir Karl Sigurbjörnsson síðar biskup og Pálmi Mattiasson sóknarprestur. Sóknarprestur Grafarvogskirkja Grafarvogi var Vigfús Þór Árnason sem sýndi verki okkar einstakan skilning og gekk fram af miklum dugnaði varandi framhaldið.
Í kirkjunni má finna öll helstu tákn kirkjubygginga í gegnum aldirnar. Þar má nefna að kirkjan er þrískipa, sem tákna heilaga þrenningu og hliðarskipin eru fjögur hvoru megin eins og Guðspjallamennirnir og alls átta sem tákna sjö daga sköpunarinnar og nýtt upphaf. Og ekki má gleyma „Via Sacra“ sem er hinn heilagi vegur frá fæðingu til eilífðarinnar sem er eftir miðskipi kirkjunnar sem endar með hring við altarið sem táknar eilífðina.
STEINN ÁBERANDI Í HÖNNUN HÚSSINS
Steinn er áberandi í hönnun hússins enda er það klætt steini bæði að utan og innan og vísa steinarnir í ritningargreinina „Látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús...“ (Fyrra Pétursbréf 2:5).
Við arkitektarnir vildum laða fram andlegt hús.
Steinninn er i eðli sínu þungur og táknar söfnuðinn og efnið meðan hliðarskipin eru létt og tákna andann. Margt fleira sem varðar táknmál kirkubygginga sem ekki verður tíundað.
Heildarstærð kirkjunnar er um 2.890 m² og aðalrýmið er á tveimur hæðum, 1.000 m² hvor hæð. Þetta er mjög stór bygging og langstærsta Guðshús á landinu. Til samanburðar er Hallgrímskirkja 1.680 m2.
Nú eru 36 ár síðan hugmynd okkar Finns Björvinssonar var drengin með blýanti á blað. Engin tölva, bara hugur og hönd.
Hjálagt er myndband sem ég tók í dag ásamt stiklu sem ég fann á netinu af fermingarbörnum.“
- JGH

Hilmar Þór Björnsson arkitekt. „Nú eru 36 ár síðan hugmynd okkar Finns Björvinssonar var drengin með blýanti á blað. Engin tölva, bara hugur og hönd.“

