Hvað á að gera við gamla jólatréð á morgun? Sorpa eða Fjölnir?

6. janúar 2026

Hvað á að gera við gamla, lifandi jólatréð á morgun þegar flestir taka niður jólaskrautið og mörg heimili færast í fyrra horf. Ekki dugir að setja trén út fyrir lóðamörk því Reykjavíkurborg fer ekki um til að tína þau upp og koma þeim í Sorpu.


Hægt er að skjótast með trén á endurvinnslustöðvar Sorpu, endurgjaldslaust.


Þá er vert að vekja athygli á þjónustu handboltadeildar Fjölnis sem tekur að sér að ná í tréð fyrir 4 þús. kr. og þannig er hægt að slá tvær flugur í einu höggi; farga trénu og styrkja Fjölni í leiðinni.


En umfram allt - ekki henda gamla jólatrénu út fyrir girðingu og halda að „einhver annar“ eigi að hirða það upp og koma því á „haugana“ - „öskuhaugana“ eins og þeir voru kallaðir í gamla daga og áður en Sorpa kom til sögunnar með sitt fína nafn.


Símatími skrifstofu Fjölnis er mánudaga til fimmtudaga frá 10:00 til 11:30. Síminn er 578-2700. Netfangið hjá Fjölni er skrifstofa@fjolnir.is   - JGH

Þrettándinn er í dag og við kveðjum jólahátíðina. En hvað á að gera við gamla jólatréð? Koma því í Sorpu eða hafa samband við handboltadeild Fjölnis sem kemur og sækir tréð gegn gjaldi. Með þessu er hægt að losna við tréð og styrkja íþróttafólkið okkar í leiðinni.