Hringtorgið við Víkurveg - hvers vegna í ósköpunum? Enginn metnaður?
HVERFIÐ OKKAR!Það hefur valdið mörgum Grafarvogsbúanum heilabrotum og hugarangri hvers vegna í ósköpunum hringtorgið við Víkurveg og Borgaveg sé haft svona afspyrnu ljótt og óhirt ár eftir ár - ekki síst í ljósi þess að önnur hringtorg í Grafarvogi eru borginni til sóma og líta mjög vel út. Ber að hrósa fyrir umhirðu þeirra.
Sannast sagna er metnaðarleysi borgarinnar með hringtorgið við Víkurveg-Borgaveg allt að því óskiljanlegt.
Í byrjun júní birti Grafarvogur.net myndir af þessu hringtorgi þar sem njólinn réð ríkjum og þá var líka spurt hvers vegna.
Einhver öflugur Grafarvogsbúi missti svo þolinmæðina í sumar og réðst á njólann og stakk hann upp. Það var þjóðþrifaverk. (Væri gaman að vita hver þar hafi verið að verki).
Grastoppar blasa núna við á víð og dreif á torginu - ofvaxnir auðvitað í takt við stefnu borgarinnar að slá ekki nema hér og þar - sums staðar og hvergi.
Hvernig væri nú að borgin tæki sig tak og hefði þetta hringtorg í ætt við önnur hringtorg í Grafarvogi - þ.e. til fyrirmyndar og vel snyrt? - JGH

Vel gert! Hringtorgið við Borgaveg og Sóleyjarima í átt að Spönginni.

Vel gert! Hringtorgið fyrir ofan Spöngina.

Hringtorgið við Víkurveg-Borgaveg. Njólinn farinn en ofvaxnir grastoppar blasa við á víð og dreif. (Mynd tekin í gærkvöldi 5. ágúst.)

Njólinn allsráðandi á hringtorginu við Víkurveg-Borgaveg. (Mynd tekin að kvöldi 4. júní. sl.)