Hnútar og rembihnútar við gatnamótin um Bæjarhálsinn

22. ágúst 2025

BÆJARHÁLSAHNÚTURINN.  Gatnamótin við Höfðabakka og Bæjarhálsinn hafa um langt skeið verið eins konar martröð bíleigenda sem þar hafa átt leið um frá klukkan tvö til fimm á daginn. Allt í hnút og oft í rembihnút.


Núna er verið að þrengja enn að umferðinni við þessi gatnamót - og máttu þau þó ekki við því. Verið er að taka tvær beygjuakreinar af inn í Árbæinn þegar ekið er upp Höfðabakkann að Bæjarhálsi og ein höfð í staðinn.


Svolítil hliðrun til hægri á akreinunum fyrir vikið þegar ekið er upp Höfðabakkann að Bæjarhálsi. Þarna verða þrjár akeinar. 1)  Sú lengst til vinstri í Árbæinn. 2)  Sú í miðjunni í Breiðholtið. 3) Sú sem er lengst til hægri liggur inn á Ártúnsholtið og þar er í raun verið að búa til nýja akrein.


En taki menn eftir því að akreinin lengst til hægri sem liggja mun í Ártúnsholtið verður ekki með biðskyldu heldur LJÓSUM.


Sama verður upp á teningnum um hægribeygjuna frá Bæjarhálsi niður að Höfðabakka. Þar verður ekki lengur beygja með biðskyldu heldur LJÓSUM.


Hafi verið hnútar og rembihnútar í umferðinni þarna um langt skeið þá verða þarna enn meiri tafir á þessum tíma dags með þessum breytingum. Líklega verður umferðarhnúturinn núna kallaður Bæjarhálsarembihnúturinn.


Þarna er verið að breikka miðeyjuna á Höfðabakka og setja ný og fullkomnari umferðarljós.  - JGH

Þær voru tvær en verða ein. Verið er að taka eina beygjuakrein af frá Höfðabakka inn í Ábæinn og breikka miðeyjuna - sem og að setja upp ný og fullkomnari umferðarljós.

Miðeyjan breikkuð til að auka öryggi gangandi vegfarenda og hjólreiðarmanna - sem og setja upp ný og fullkomnari umferðarljós.

Veröld sem var. Nú verður akreinunum hliðrað til hægri.

Hægribeygjan inn í Ártúnsholtið gerð krappari og með ljósum. Beygjan var þægilegri áður og með biðskyldu til að greiða fyrir umferðinni. Rætt er víst um „beygjuvasa“ hvaðan sem það orð er komið.

Sama hér. Hægribeygjan af Bæjarhálsi niður á Höfðabakka var áður með biðskyldu en núna hefur hún verið gerð krappari og með ljósum.