Gunnar Már, þjálfari Fjölnis. Erfiður leikur gegn Keflavík í kvöld en mikill hugur í liðinu
Gunnar Már Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Fjölnis í Lengjudeildinni, segir að þrátt fyrir erfitt gengi liðsins í sumar sé mikill hugur í liðinu. Leikmenn séu jákvæðir og staðráðnir í að fikra sig upp stigatöfluna í þeim tíu leikjum sem eftir eru af mótinu. Liðið á erfiðan útileik fyrir höndum gegn Keflavík í kvöld.
„Það er mikill hugur í liðinu og við höfum styrkt okkur núna í glugganum með því að fá danska leikmanninn Laurits Nørby til okkar frá danska liðinu Hobro IK. Laurits er varnarmaður að upplagi og við bindum miklar vonir við hann,“ segir Gunnar Már.
Gengi liðsins hefur sannast sagna verið fremur erfitt í sumar en augljós batamerki sjást á liðinu í síðustu leikjum og það fengið sex stig af síðustu tólf mögulegum.

„Við höfum styrkt okkur núna í glugganum með því að fá danska leikmanninn Laurits Nørby til okkar frá danska liðinu Hobro IK.“
En hvað hefur farið úrskeiðis í sumar?
„Það spilar ýmislegt inn í eins og gengur. Vissulega hafa verið talsverð meiðsli meðal leikmanna og eins hafa mjög jafnir leikir fallið hinum megin fyrir algera óheppni. Nú, margir leikmenn eru í nýjum hlutverkum, þ.e. þeir eru í stærri hlutverkum en áður. Ég hef hins vegar mikla trú á framhaldinu. Það eru tíu leikir eftir og við erum staðráðnir í að standa okkur.“
Þá má geta þess að lið Fjölnis er frekar ungt að árum og meðalaldur leikmanna í lægri kantinum miðað við aðra meistaraflokka á landinu.
Tólf lið eru í Lengjudeild karla og falla tvö þau neðstu niður um deild. Sem stendur er lið Fjölnis í 11. sæti sem er fallsæti en það er stutt í næstu lið.
SANNUR GRAFARVOGSBÚI
Gunnar Már er alinn upp í Grafarvogi og spilaði með Fjölni alla tíð. Hann hefur þjálfað liðið til margra ára fyrir utan síðasta ár þegar hann þjálfaði Þrótt í Vogum á Vatnsleysuströnd.
Það er óhætt að segja að Gunnar sé sannur Grafarvogsbúi. „Ég flutti með foreldrum mínum í hverfið 1985 – nánar tiltekið í janúar ´85 sem við fluttum í Funafoldina,“ segir hann og brosir.
Áfram Fjölnir í kvöld sem aðra daga. - JGH

Sannur Grafarvogsbúi. Gunnar Már flutti í Grafarvoginn með foreldrum sínum í janúar 1985 - eða fyrir fjörutíu árum.

Fjölnir er í 11. sæti sem stendur en það er stutt í næstu lið og með nokkrum sigrum á næstunni vænkast hagur liðsins verulega.

Glugginn opnaðist í gær og danski leikmaðurinn Laurits Nørby hefur skrifað undir samning við félagið. Hann kemur frá danska liðinu Hobro IK og er varnarmaður að upplagi.