Góð grein í Mogga um þéttinguna í Grafarvogi eftir Kjartan Eggertsson
KJARTAN EGGERTSSON íbúi í Grafarvogi birti góðan grein í Morgunblaðinu á sumardaginn fyrsta um framgöngu borgaryfirvalda gagnvart Grafarvogsbúum. Yfirskrift greinar Kjartans er: Að breyta reglum og markmiðum í miðjum leik.
Þar segir hann að borgaryfirvöld segist gefa borgarbúum tækifæri á að segja álit sitt á gjörningum en í flestum tilfellum sé um sýndarmennsku að ræða - búið sé að ákveða hvað skuli gert og hvernig. Þetta hafi Grafarvogsbúar uppgötvað í kjölfar hugmynda um íbúðabyggingar þar sem áður áttu að vera græn svæði. Leikreglurnar séu togaðar og teygðar, en það sem verst sé er að markmiðin í leiknum séu önnur en fólk ætlaði.
Þá segir hann það skrýtið að nýr meirihluti skuli ætla að reyna að valta yfir borgarbúa með hugmyndum sínum þótt hann hafi varla umboð til þess og einungis eitt ár sé til kosninga.

Túnið fyrir neðan Gufunesstöðina - fjarskiptastöð Isavia - liggur að Rimaskólanum. Þar verða byggð fjölbýlishús með hálft bílastæði á hverja íbúð.
HÁLFT BÍLASTÆÐI Á HVERJA ÍBÚÐ Á TÚNINU
Þá segir Kjartan: „Í miðju Rimahverfi er stórt tún við hliðina á Rimaskóla, einum af fjölmennustu grunnskólum landsins. Borgaryfirvöld hafa lofað ýmsu um þetta tún, m.a. að það yrði útivistarsvæði sem lagað yrði að lýðheilsumarkmiðum og búið í haginn fyrir framtíðina. Nú á að byggja þar í andstöðu við meirihluta íbúa.
Í fyrstu áttu þar að vera háhýsi og engin bílastæði við húsin en bílastæðahús í 300 metra fjarlægð. Eftir mótmæli íbúa voru húsin lækkuð, íbúðum fækkað og bílastæði leyfð við hvert hús, en bara hálft á hverja íbúð.
Þessi hugmynd um hálfu bílastæðin byggist á einkaskoðunum tveggja valdamikilla borgarfulltrúa í skipulagsráði um bifreiðanotkun, en þeir eru á móti einkabifreiðum. Allir Grafarvogsbúar þurfa að eiga bíl og flestar fjölskyldur fleiri en einn bíl.“
BÍLAFLOTINN Í KRINGUM BÍLLAUSU BLOKKINA Í GUFUNESI
Hann segir ennfremur: „Borgin byggði heila blokk í Gufunesi þar sem eingöngu skyldu eiga heima þeir sem ekki þyrftu á bifreiðum að halda og væru tilbúnir að nota almenningssamgöngur. Þar er nú heill bílafloti kringum þessa blokk á svæðum þar sem ekki er gert ráð fyrir að bifreiðum sé lagt. En borgaryfirvöld vilja ekki læra af þeirri reynslu.“
Hann lýkur grein sinni með orðunum: „Áfram skulu borgaryfirvöld reyna að eyðileggja fyrir borgarbúum vitandi að þjóðlíf Íslendinga og velferð byggist á góðum samgöngum með einkabíl sem og nothæfum almenningssamgöngum þar sem þær eru í boði.“

Greinarhöfundur, Kjartan Eggertsson, íbúi í Grafarvogi.
HÉR MÁ LESA GREININA Í HEILD SINNI.
„Eflaust kannast flestir við það að hafa spilað borðspil þegar upp kemur ágreiningur um reglurnar. Ýmist hafa menn ekki lesið reglurnar eða misskilið. Þá er að ná samkomulagi um túlkun þeirra þó svo erfitt geti verið því sumir eru jú bæði þrætugjarnir og skapmiklir.
Borgarbúar lifa flestir í þeirri trú að reglur samfélagsins séu sanngjarnar og skýrar og að komi upp ágreiningur í miðjum leik þá verði komist að samkomulagi sem allir geta sætt sig við.
Á síðustu tímum hafa borgarbúar mátt upplifa það að borgaryfirvöld reyni ekki einungis að breyta leikreglunum heldur einnig tilgangi leiksins og markmiði. Markmiðið átti að vera það sem talað var um fyrir kosningar en í „miðjum leik“ eru aðalmarkmiðin einhverjar kreddur einstakra borgarfulltrúa sem enginn meirihlutavilji er fyrir.
SÝNDARMENNSKA BORGARYFIRVALDA
Borgaryfirvöld segjast gefa borgarbúum tækifæri á að segja álit sitt á ýmsum gjörningum en í flestum tilfellum er um sýndarmennsku að ræða – búið er að ákveða hvað skuli gert og hvernig. Þetta hafa Grafarvogsbúar uppgötvað í kjölfar hugmynda um íbúðabyggingar þar sem áður áttu að vera græn svæði. Leikreglurnar eru togaðar og teygðar, en það sem er verst er að markmiðin í leiknum eru önnur en fólk ætlaði.
Þeir sem staðsetja sig og fjölskyldu í hverfi borgarinnar gera það með tilliti til þeirra hugmynda sem þeir hafa um fjölskyldulíf og atvinnu. Að undanförnu hafa þeir mátt þola að borgaryfirvöld ráðist inn á friðhelgi þessa fjölskyldulífs án þess að borgin hafi pólitískt umboð til þess og byggi gjörðir sínar, eins og áður sagði, alfarið á kreddum sem aldrei hafa komið til umsagnar kjósenda og enginn meirihlutavilji er fyrir. Þar má nefna breytingar á grænum svæðum, þéttingu byggðar, íbúðarhús án nægilega margra bílastæða, lokun skóla og skólahverfa, sameiningar skóla, lækkun hámarkshraða þar sem engin er þörfin, byggingu strætóstöðva nánast á miðjum umferðaræðum, byggingu húsnæðis sem lokar á allt útsýni og dregur úr birtu og byggingu íbúða við umferðaræðar þar sem hávaðamörk eru yfir leyfilegum reglum og mörkum. Allt þetta hafa borgarbúar mátt upplifa að undanförnu og þá sérstaklega Grafarvogsbúar.
TÚNIÐ VIÐ HLIÐINA Á RIMASKÓLA - HÁLFT STÆÐI Á ÍBÚÐ
Það er skrýtið að nýr meirihluti skuli ætla að reyna að valta yfir borgarbúa með hugmyndum sínum þótt hann hafi varla umboð til þess og einungis eitt ár til kosninga.
Í miðju Rimahverfi er stórt tún við hliðina á Rimaskóla, einum af fjölmennustu grunnskólum landsins. Borgaryfirvöld hafa lofað ýmsu um þetta tún, m.a. að það yrði útivistarsvæði sem lagað yrði að lýðheilsumarkmiðum og búið í haginn fyrir framtíðina. Nú á að byggja þar í andstöðu við meirihluta íbúa. Í fyrstu áttu þar að vera háhýsi og engin bílastæði við húsin en bílastæðahús í 300 metra fjarlægð. Eftir mótmæli íbúa voru húsin lækkuð, íbúðum fækkað og bílastæði leyfð við hvert hús, en bara hálft á hverja íbúð. Þessi hugmynd um hálfu bílastæðin byggist á einkaskoðunum tveggja valdamikilla borgarfulltrúa í skipulagsráði um bifreiðanotkun, en þeir eru á móti einkabifreiðum. Allir Grafarvogsbúar þurfa að eiga bíl og flestar fjölskyldur fleiri en einn bíl.
BORGARYFIRVÖLD GEGN EINKABÍLNUM
Grafarvogur er byggður upp með það fyrir augum að samgöngur séu góðar – að þeir sem ekki nota bíla geti tekið strætó hvert sem er og þær fjölskyldur sem það vilja geti átt bíl og það fleiri en einn og tvo. Borgaryfirvöld hafa hins vegar tekið þá stefnu að skemma og tefja fyrir akstri bifreiða um hverfið, inn og út úr því, og nú á að selja fólki íbúðir án bifreiðastæða. Samt vita borgaryfirvöld að enginn sem bílastæðalausa íbúð kaupir mun spyrja um það hvort hann megi eiga bíl, einn eða fleiri, og mun leggja honum hvar sem það er hægt, jafnvel inni í garði hjá næsta manni.
BÍLLAUSA BLOKKIN Í GUFUNESI
Borgin byggði heila blokk í Gufunesi þar sem eingöngu skyldu eiga heima þeir sem ekki þyrftu á bifreiðum að halda og væru tilbúnir að nota almenningssamgöngur. Þar er nú heill bílafloti kringum þessa blokk á svæðum þar sem ekki er gert ráð fyrir að bifreiðum sé lagt. En borgaryfirvöld vilja ekki læra af þeirri reynslu.
Áfram skulu þau reyna að eyðileggja fyrir borgarbúum vitandi að þjóðlíf Íslendinga og velferð byggist á góðum samgöngum með einkabíl sem og nothæfum almenningssamgöngum þar sem þær eru í boði.“ - Kjartan Eggertsson, íbúi í Grafarvogi.