Gífurleg samstaða og hópmálsókn íbúa í Grafarvogi gegn borginni kemur til álita
SAMSTAÐA GRAFARVOGSBÚA. Ekki vantaði samstöðuna á fjöldafundi Grafarvogsbúa í Rimaskóla núna síðdegis og fundurinn ályktaði samhljóma að senda harðorða yfirlýsingu til meirihlutans í borginni um að falla frá öllum áformum sínum um þéttingu í hverfinu og meginkrafan var einföld: „Látið Grafarvog í friði“.
Niðurstaða fundarins var að hópmálsókn íbúa í Grafarvogi gegn borginni kemur til álita og var reifuð - sem og að krefjast íbúakosningar um þéttingarstefnu borgarinnar í samstarfi við önnur hverfi - en minnst 20% íbúa með kosningarétt þarf til að knýja fram íbúakosningu.
Enginn borgarfulltrúi frá meirihlutanum var á staðnum og létu ekki svo lítið sem að sjá sig. Nokkrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru mættir.
Þegar komið var að skólanum rétt fyrir fundinn streymdi fólk að og ekki fór á milli mála að eitthvað mikið lá í loftinu; jú, fundarmenn voru komnir til að sjá og sigra; mótmæla, allir sem einn.
Grafavogsbúar finna fyrir mótlætinu og upplifa mikla sýndarmennsku af hálfu meirihlutans og að hann valti yfir þá með áformum sínum um þéttingu byggðar í grónum og fullbyggðum Grafarvogi.

Salur Rimaskóla var smekkfullur og þurfti að opna fram á gang til að koma fólki fyrir á fundinum.
Sigrún Ásta Einarsdóttir, íbúi í Grafarvogi, setti fundinn sem haldinn var af Íbúasamtökum Grafarvogs og hópnum Okkar Grafarvogur.
Hún kynnti fyrstan til leiks Pál Jakob Líndal umhverfissálfræðing sem hélt mjög fróðlegt erindi um mikilvægi grænna svæða í byggð (svonefnd 3 - 30 - 300 regla) sem og um fjölda kannana um gagnrýni á þéttingu byggða og ofnýtingu á byggingarreitum með þrengslum, háhýsum og skorti á náttúru.
Það var mikið hlegið þegar Páll var spurður hvort borgin hefði ekki leitað til hans sem umhverfissálfræðings. ,,Nei, það hefur hún ekki gert. Það er ekki eftirspurn eftir mér hjá borginni.“
Þá sagði
Aðalsteinn Snorrason arkitekt nokkur orð og vísaði til þess að lítil fagmennska væri yfir tillögum meirihlutans og í raun stórmerkilegt að arkitektar og aðrir fagmenn innan borgarinnar kæmu að þessum tillögum.

Mikill hugur var í fundarmönnum og andstaðan við þéttinguna alger.
Sigrún Ásta Einarsdóttir flutti síðan mjög kraftmikla og kjarnyrta ræðu og rakti meðferð fyrrverandi og núverandi meirihlutans í borgarstjórn á Grafarvogsbúum og að fagurgali núverandi borgarstjóra um íbúalýðræði og samtal við Grafarvogsbúa væri hjákátlegur - og það að hún leyfði sér að úthluta nýjum lóðum í deiliskipulagi sem ekki væri búið að auglýsa og samþykkja væri fullkomin lítilsvirðing við íbúa og þann andmælarétt sem þeir hefðu lögum samkvæmt.
Sigrún fékk mikið lófaklapp þegar hún hafði reifað hópmálsóknina og íbúakosninguna á glæru sem bar yfirskriftina HVAÐ NÆST? - þegar hún bætti svo við: SVEITARFÉLAGIÐ GRAFARVOGUR.
Hún bar síðan um tillögu fundarins til Reykjavíkurborgar þar sem þess er krafist að fallið verði frá öllum áformum um þéttingu byggðar í Grafarvogi og var tillagan samþykkt samhljóða með miklu lófaklappi. - JGH

Sigrún Ágústa Einarsdóttir, íbúi í Grafarvogi, setti fundinn og hélt svo þrusuræðu á fundinum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. Friðjón Friðjónsson, Hildur Björnsdóttir og Björn Gíslason - en þær Marta Guðjónsdóttir og Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir voru einnig á fundinum ásamt Diljá Mist Einarsdóttur alþingismanni en hún er úr Grafarvogi.

Ályktun fundarins sem samþykkt var samhljóma með handaupplyftingu og síðar miklu lófataki.

HVAÐ NÆST? Hópmálsókn og íbúakosning. Og svo...við mikið lófaklapp: „Sveitarfélagið Grafarvogur.“ En Grafarvogur (pósthólf 112) er í 2. sæti yfir útsvarsgreiðendur í Reykjavík.

Stöndum þétt saman og snúum bökum saman. Mikill samhugur og samstaða var á fundinum.

Dr. Páll Jakob Líndal umhverfissálfræðingur. Það er ekki sama hvernig umhverfið er fyrir sálartetrið.