Gekk glimrandi vel - Rimaskóli hreppti bronsið á Norðlandamótinu í skák

16. september 2025

„Þetta gekk alveg glimrandi vel og krakkarnir komu vel undirbúin til leiks, sýndu baráttu og þolinmæði, yfirvegaða taflmennsku og vandaða tækni,“ segir Helgi Árnason, fararstjóri skáksveitar Rimaskóla sem tefldi á Norðurlandamóti barnaskólasveita í Helsinki í Finnlandi um nýliðna helgi, dagana 12. - 14. september.


Skáksveit Rimaskóla endaði í 3ja sæti mótsins og unnu bronsverðlaunin sem gladdi mjög eftir jafna baráttu. 


Norski Slemdal-skólinn hafði nokkra yfirburði á mótinu en skólarnir 2. - 5. sæti börðust um hin tvö verðlaunasætin.


Í skáksveit Rimaskóla á mótinu voru þau Tristan Fannar Jónsson, Emilía Embla B. Berglindardóttir, Sigrún Tara Ingadóttir, Emilía Sigurðardóttir og Tara Líf Ingadóttir. 


Að sögn Helga Árnasonar var ferðin í alla staði vel heppnuð og ánægjuleg og vel staðið að mótinu. Teflt var í húsnæði finnska skáksambandsins og sýnt beint frá öllum skákum mótsins. Gist var á glænýju hóteli Sokos -Tripla sem er í einhverri stærstu verslunarmiðstöð Norðurlandanna.


Þetta var í 17. skipti sem Rimaskóli vinnur sér inn þátttöku á Norðurlandamóti grunn- og barnaskólasveita. Skólinn hefur unnið í sex skipti, tvívegis endað í öðru sæti og fimm sinnum hreppt bronsverðlauin. - JGH

Mikil spenna og bronsið í höfn.

Gist var á glænýju hóteli Sokos -Tripla í Helsinki í Finnlandi en hótelið er í einhverri stærstu verslunarmiðstöð Norðurlandanna.

Hópurinn. Helgi Árnason, fararstjóri og formaður skákdeildar Fjölnis, Tristan Fannar Jónsson, Tara Líf Ingadóttir, Emilía Sigurðardóttir, Sigrún Tara Ingadóttir, Emilía Embla B. Berglindardóttir og þjálfari krakkanna, Björn Ívar Karlsson, skákkennari Rimaskóla.